Error loading MacroEngine script (file: OpenGraphMetadata.cshtml) Spássían.is - Takmarkanir mannskepnunnar

Takmarkanir mannskepnunnar

Í skáldsögu Steinunnar Sigurðardóttur, jójó, sem kom út fyrir síðustu jól, segir frá örlagaríkum sólarhring í lífi geislalæknisins Martin Montags; deginum þegar hann áttar sig á því að einn af sjúklingum hans er maðurinn sem nauðgaði honum þegar hann var barn. Síðan daginn sem ofbeldisverkið var framið hefur Martin að eigin sögn ekki verið nema hálfur maður, snertifælinn, haldinn sjálfsmorðshugsunum og óhæfur til að elska kærustuna eins og hún á skilið.

Í Fyrir Lísu er fylgst með því hvernig Martin tekst á við þetta hugarmein sem blossað hefur upp á nýjan leik. Líkt og í jójó er sögusviðið Berlín og Martin er sögumaður. Frásögnin í jójó litast af því að Martin talar ýmist um sig í 1. eða 3. persónu og afhjúpar þannig óstöðuga sjálfsmynd sína en í Fyrir Lísu fer minna fyrir þess konar umskiptum í frásagnaraðferð, enda fjallar hún um það hvernig Martin vinnur smám saman á meininu innra með sér og eygir von um að verða heill maður á ný.

Fyrir Lísu er öðrum þræði saga um nána vináttu og ást og hvernig þessar tilfinningar eru ekki bundnar kyni eða maka heldur ástvinum almennt. Þar er ástarþríhyrningur í brennidepli sem samanstendur af Martin, kærustunni Petru og besta vini hans, sem heitir einnig Martin og er franskur fyrrverandi útigangsmaður. Til að vinna úr tilfinningaflækjum og takast á við erfiðar ákvarðanir þarf Martin bæði á Petru og Martin franska að halda og tilfinningar hans til beggja eru sterkar. Martinarnir tveir eru svo nánir að Petra heldur að þeir séu elskhugar en þó er ljóst að svo er ekki. Þeir spegla sig hvor í öðrum og líta má á þá sem tvær hliðar sama manns; Martin hinn franski er röddin sem fær Martin sögumann til að leita annarra leiða en drepa ofbeldismanninn og sýnir honum að kynferðisofbeldi á sér margar hliðar.

Á hinn bóginn er Fyrir Lísu saga um það sem Martin sögumaður gerir fyrir Lísu, sem er fórnarlamb sama ofbeldismanns og hann. Martin elskar hana heitt en þó ekki ást elskhuga heldur ást byggðri á samkennd. Hennar vegna segir hann frá leyndarmáli sínu og hægt og sígandi fer atburðarás af stað sem hefur mikla þýðingu fyrir þau bæði.

Jójó kallaði í raun ekki á framhald, því eins og við vitum fá mörg fórnarlömb kynferðisofbeldis aldrei bót sinna meina og sögur þeirra enda fæstar vel. Lausnirnar sem höfundur Fyrir Lísu gefur sögupersónum sínum gætu virst ótrúverðugar og skáldsagan endar næstum of vel. Steinunn sagði í viðtali í Víðsjá 7. nóvember sl. að henni hefði fundist erfitt að skilja við persónur í lausu lofti, sem hefðu gengið í gegnum svo mikla erfiðleika. Lái henni hver sem vill.

Aftur á móti fá ýmsar aðrar hliðar kynferðisofbeldis meira vægi í Fyrir Lísu en fyrri bókinni, til dæmis mikilvægi þess að fella erfiða reynslu í orð, sem og ábyrgð foreldra og hvað veldur því að sumir bregðast börnum sínum og neita að horfast í augu við að þau séu beitt ofbeldi. Þessi hlið kynferðisafbrota gegn börnum er viðkvæm en Steinunn fer afar vel með viðfangsefnið og bregður upp mörgum ólíkum sjónarmiðum með því að láta aðalpersónurnar ræða saman um reynslu sína.

Fyrir Lísu er óvænt en ánægjulegt framhald af hinni frábæru skáldsögu jójó. Einn stærsti kostur þessara bóka er að í stað þess að fella dóma eða draga upp svart-hvíta mynd af afleiðingum kynferðisofbeldis leggur Steinunn áherslu á margbreytilegt tilfinningalíf og breyskleika mannskepnunnar. Þetta kristallast í því sem Petra segir við Martin í Fyrir Lísu þegar hann viðurkennir að hann eigi erfitt með að skilja móður sína:

„Reyndu að horfa framhjá. Við verðum, elsku Martin, að gera eins og við getum til að láta ekki þessa fortíð halda áfram að skaða okkur. Eins og það sé ekki nóg að vera skaddaður í eitt skipti fyrir öll. Horfðu á mömmu þína eins og það sem hún er. Manneskja. Takmörkuð eins og við erum.“ (170)

 

;
©Ástríki ehf. Vesturströnd 15, 170 Seltjarnarnes
Sími: 692 6012.