Error loading MacroEngine script (file: OpenGraphMetadata.cshtml) Spássían.is - Svipt ævintýraljóma

Svipt ævintýraljóma

Ég var miður mín eftir að lestri á Bjarna-Dísu lauk og þessi örlagasaga stúlku sem var rétt að hefja lífið á vafalaust eftir að sitja í mér lengi. Frásögnin gerist á fimm dögum, þegar Þórdís Þorgeirsdóttir, 24 ára vinnukona fylgir bróður sínum yfir heiði og inn í vetrarhríð. Hún neyðist til að grafa sig í fönn á meðan Bjarni, bróðir hennar, heldur til byggða og bíða þar örlaga sinna. Lesendur fá um leið að kynnast stuttu lífshlaupi hennar, persónuleika og draumum svo og aðstæðum sem vinnuhjú á 18. öld bjuggu við. Skortur, hungur, ungbarnadauði, barsmíðar, þrældómur, misnotkun og djúpstæð trú á hindurvitni og illar vættir  markaði líf þessa fólk, þessara forfeðra okkar.

Verkefnið sem Kristín Steinsdóttir færist á hendur í skáldsögunni Bjarna-Dísu er að svipta þjóðsöguna ævintýraljómanum sem loðað hefur við hana. Bjarna-Dísa er ein alræmdasta vætt sem sögur fara af á Austfjörðum og hingað til hafa frásagnir af þeim ósköpum sem henni voru eignuð skyggt á söguna af sjálfri stúlkunni. Sagan um Bjarna-Dísu er vel þekkt úr þjóðsögum Jóns Árnasonar en heimildarmaður er gjarnan nefndur Þorvaldur Ögmundsson maðurinn sem Bjarni fékk með sér upp á fjall til að leita hennar. Saga Þórdísar er sorgleg og ekki síst vegna áhrifanna sem 18. aldar þröngsýni og hindurvitni höfðu á atburðarásina en í sögu Kristínar er sorg Þórdísar mest yfir þeim eftirmælum sem hún hlaut; að vera álitin draugur sem lagðist á fólk og kvaldi og vera jafnvel gefið að sök að hafa grandað öllum 13 börnum bróður síns. Saga hennar var ekki hennar eigin heldur endursögð á máta sem 18. aldar samfélagið var tilbúið til að taka trúanlegan. Þjóðsögur eru stór og mikilvægur hluti af okkar sagnaarfi og örugglega fáir núlifandi Íslendingar sem hafa ekki verið aldir upp við trú á einhverjar af þessum sögum. Hvort sem það er á drauga, galdramenn eða álfa. Þær eru flestar bundnar við átthaga og hefur tíminn sveipað þær hugljúfum ævintýrablæ. En ekki þarf að krafsa mikið í yfirborðið til að fletta ofan af lýsandi dæmum um þá eymd og það volæði sem íslenska þjóðin bjó við. Hjátrúin átti sinn þátt í að gera illt verra þar sem sturlað fólk var stimplað sem afturgöngur og hversdagsleg illvirki og glæpir sett undir hatt hins yfirnáttúrulega. Sjálfsblekkingin rataði svo í sögubækurnar.

Sagan er sögð með hinum knappa stíl sem Kristín hefur tileinkað sér. Hún er tiltölulega stutt en rík af smáatriðum . Persónuleiki Dísu verður strax ljóslifandi og þegar ég las þjóðsöguna eftir að ég las bókina bar þeim ótrúlega vel saman. Þar er henni lýst svo: „Þórdís var þokkaleg sýnum, en þótti fremur svarri í geði. Hún hélt sér mikið til í klæðaburði og apaði það, sem hún gat, eftir dönsku kvenfólki, enda var hún til vistar í Eskifjarðarkaupstað seinasta árið, sem hún lifði.“[1] Í stað þess að telja þessi hluti til lasta notar Kristín þá til að bregða upp mynd af stúlku sem lét sig dreyma um betri stöðu í lífinu og lét ekki hvað sem er yfir sig ganga.

Þarf ég að taka fram að bókin er góð? Auðvitað er hún góð. Frábær jafnvel. Og svo sannarlega þörf viðbót við einhæfa og oft fordómafulla sögusýn þessarar þjóðar.

 [1] Sótt af heimasíðu Netútgáfunnar 22.12.2012: 
      http://snerpa.is/net/thjod/bjarnadi.htm

;
©Ástríki ehf. Vesturströnd 15, 170 Seltjarnarnes
Sími: 692 6012.