Error loading MacroEngine script (file: OpenGraphMetadata.cshtml) Spássían.is - Stakkató minninganna

Stakkató minninganna

Fjölskyldan er mörgum rithöfundinum ofarlega í huga þetta árið og má m.a. sjá þá sækja efnivið í minningar af mæðrum, feðrum, systkinum og hundum. Oft er um ljúfsárar minningar að ræða og greinilegt að höfundar vilja ekki fegra um of myndina sem þeir mála upp af sínum nánustu heldur draga fram bæði kosti og galla. Margir takast á við það verkefni af svo miklum húmor og hlýju að lesandinn getur ekki annað en kannast við að flestum þykir okkur nánast jafn vænt um galla okkar nánustu og kosti þeirra – nema kannski rétt á meðan þeir gera okkur gramt í geði. Eftir stendur frásögn sem nær til lesandans með meiri einlægni en nokkur glansmynd gæti gert.

Ævisaga fuglaveiðihundsins Gríms Fífils (sem aldrei veiddi fugla en dreymdi um að fljúga) er ein af slíkum vel heppnuðum endurminningabókum. Fram kemur á baksíðu að höfundurinn, Kristín Helga Gunnarsdóttir, byggir hana á ævi raunverulegs hunds úr fjölskyldu sinni, og hún segir frá spaugilegum atvikum og ævintýralegum uppákomum af mikilli fimi. Til dæmis er eftirtektarvert hvernig hún býr til spennu gegnum endurtekningu og stigmögnun sem höfðar sérlega vel til barna; þrisvar er sagt frá því þegar Grímur er  skilinn eftir heima og þrisvar fer Grímur í bílferð í sveitina með vini sínum. Við hverja endurtekningu vex eftirvæntingin; hverju tekur hann upp á næst.

Frásögnin er þannig uppbyggð að staldrað er við ýmsar minnisstæðar stundir í lífi Gríms Fífils. Bókin hefst á stundinni þegar hann var valinn úr hópi systkina sinna til að búa á heimili hjóna sem hann kallar Bestu og Fúla. Við fylgjumst með því hvernig Grímur lærir að takast á við erfið verkefni eins og að vera skilinn eftir heima á daginn og hvernig mannfólkið lærir að stundum er betra að sætta sig við hunda eins og þeir eru en reyna að breyta þeim. Við fylgjum þannig Grími allt til æviloka og fáum í endann söguna af því hvernig hann dó. Ef eitthvað er út á þessa uppbyggingu að setja er það að stundum er nokkuð hratt farið yfir í ævisögu Gríms; gloppurnar verða oft stórar og samfellan í frásögninni er ekki alltaf mikil. Á móti kemur að fyrir vikið verður þetta enginn langdreginn langhundur heldur nokkurs konar fjörugt stakkató, eins og minningar okkar af þeim sem farnir eru vilja oft verða. Eftir situr sterk tilfinning um merkilegan persónuleika og mikla væntumþykju fremur en heildstæður söguþráður.

Nöfnin sem Grímur gefur mannfólkinu lýsa því hvað einkennir það í huga hans. Samkvæmt hundalógík hans er Besta „númer eitt“ í virðingarstiga heimilisins. Henni er því hlýtt skilyrðislaust. Eiginmaður hennar og Grímur eru „saman númer tvö“, að mati Gríms, og því er ekki bara óþarfi heldur fáránleg hugmynd að Grímur eigi að hlýða Fúla eða taka nokkurt mark á nöldri hans um að hann gelti, slefi, liggi í sófanum og ásælist táfýlusokka. Börn Bestu og Fúla ganga undir heitinu Krílin og eru fársjóður heimilisins sem þessum þremur ber ávallt að vernda.

Sagan er semsagt sögð frá sjónarhorni hundsins og atburðarás, fólki og dýrum er lýst út frá hans skilningi á veröldinni. Slík notkun óvenjulegs sjónarhorns er þekkt frásagnarbragð og gefur oft glettna en jafnframt gagnrýna sýn á heiminn. Kristín Helga ætlar sér þó greinilega ekki aðeins að kitla hláturtaugarnar heldur að hvetja lesandann til að setja sig í spor dýranna; reyna að skilja þau og umgangast með virðingu fyrir þeirra tilfinningum. Þetta undirliggjandi markmið er áréttað í reglum Gríms um umgengni við gæludýr sem fylgja í lokin, þar sem fólki er m.a. ráðlagt að hlusta á dýrin og reyna að skilja það sem þau tjá „með hljóðum, hreyfingum og öllum líkamanum“.

Þessari bók er hægt að mæla með fyrir börn á öllum aldri. Samskipti Bestu, Fúla og hundsins eru þó ekki síður skemmtilestur fyrir fullorðna. Sem betur fer, því það er kannski fyrst og fremst fullorðna fólkið sem þyrfti að lesa reglurnar hans Gríms og rifja upp að dýr er „ekki leikfang, heldur lifandi vera og vinur“.

;
©Ástríki ehf. Vesturströnd 15, 170 Seltjarnarnes
Sími: 692 6012.