Skáld á skálmöld

Skáld eftir Einar Kárason er lokabókin í þríleik hans um Sturlungaöldina. Höfundur hefur stuðst við atburði og persónur úr Sturlungu og vel er við hæfi að ljúka þríleiknum á því að hafa Sturlu Þórðarson, höfund Íslendingasögu, sem er hryggjarstykki Sturlungu, í forgrunni. Sturla var ekki eingöngu höfundur Íslendingasögu, heldur voru hann og frændur hans Sturlungar þátttakendur í mörgum þeim atburðum sem þar er lýst.

Í sögunni er nokkrum helstu atburðum Sturlungaaldar gerð skil, svo sem Flugumýrarbrennu, Apavatnsför, Örlygsstaðabardaga og vígi Snorra Sturlusonar. Sagan skarast eðlilega nokkuð við fyrri bækur í þríleiknum, einkum við miðbókina Ofsa. Ferð Sturlu, Þorvarðar Þórarinssonar og Hrafns Oddssonar til Noregs og veturseta þeirra í Færeyjum myndar ramma um meirihluta sögunnar og á meðan þeir eru þar er stór hluti frásagnarinnar endurlit Sturlu til fortíðarinnar, annars vegar til sambands hans við fóstbróðurinn Klæng og hvernig þeir lentu hvor í sinni fylkingu og hins vegar um Flugumýrarbrennu og eftirmál hennar. Leiðarstef sögunnar er þó hugmyndin um skáldið, sem þráir ekkert heitar en að fá frið til að segja og skrifa sögur, endurorða og endurvinna þar til hvert orð er meitlað. Einnig er dreginn fram vandi höfundar við að velja einn sannleik, vitandi það að enginn einn er til og að atburðirnir hafa tekið á sig mismunandi myndir í hugum þeirra sem hlut eiga að máli.

Líkt og í fyrri bókunum tveimur notar höfundur sjónarhorn persóna og setur atburði upp í 1. persónu frásögn og lýsir þannig upplifun þeirra af atburðum. Í þessari bók er þó stærri hluti verksins settur upp í 3. persónu frásögn, ýmist sem hrein endursögn á atburðum eða sem samtöl Sturlu og Þórðar Narfasonar um liðna atburði. Það að gefa persónum líf á þennan hátt virkar að mörgu leyti vel og er sterka hlið bókarinnar þegar höfundi tekst vel upp. Til að mynda er kaflinn þar sem Ingibjörg Sturludóttir segir frá mjög sterkur og gefur atburðum aukna dýpt. Sama má segja um frásögn Orms Bjarnarsonar af dauða Þórðar Andréssonar. Að sama skapi getur slíkt veikt söguna, eins og t.d. Helga Narfadóttir kona skáldsins, en hún verður frekar einhliða persóna, draumaeiginkona skáldsins sem léttir öllum veraldlegum áhyggjum af því en bætir litlu við áhrif sögunnar.

Þrátt fyrir að um skáldverk sé að ræða er erfitt annað en að bera það saman við frummyndina sem það byggir á, Íslendingasögu Sturlu Þórðarsonar. Nálgunin er gjörólík, stíll Sturlu er hlutlægur og snarpur og persónum er fremur lýst utan frá með gjörðum þeirra og orðum og lesandinn þarf að lesa á milli línanna. Einar bregður sér hins vegar í hlutverk hins alvitra höfundar; sér í hug söguhetjanna og reynir að gæða persónur auknu lífi, lýsa tilfinningum þeirra og útskýra gerðir þeirra út frá því. Hann tekur sér einnig töluvert skáldaleyfi, til að mynda er Klængur Bjarnarson gerður vesælli en með góðu móti er hægt að lesa út úr Íslendingasögu. Einnig eignar hann nafngreindum mönnum ýmsar Íslendingasögur (sem truflaði þennan lesanda þó nokkuð). Slíkt er hægt að fyrirgefa þar sem það skiptir máli fyrir gang sögunnar, svo sem tilurð Færeyingasögu, en þar sem það var nefnt í hálfgerðu framhjáhlaupi var því ofaukið. Hið sama má segja um innskot frá höfundi 21. aldarinnar, sem stungu í stúf við heildarstíl verksins.

Margt er þó vel gert, til að mynda nær höfundur að einfalda flækjur Sturlungu og draga fram á skýran hátt nokkrar lykilpersónur og hlutverk þeirra í hamförum aldarinnar, fyrst og fremst þó hve hryllilegur sá tími var. Víglínur og flokkadrættir voru óljós og síbreytileg og þeir sem voru samherjar einn daginn gátu verið orðnir fjandmenn þann næsta, fylkingar riðluðust og að lokum voru heiftin og mannvonskan einar eftir.

Þrátt fyrir annmarka, má vel mæla með skáldverkinu sjálfu og þrátt fyrir að vera þriðja bók í þríleik stendur það fyllilega undir sér sjálft. Ótvíræður kostur við þríleikinn er að hann vekur áhuga fólks á Sturlungaöld og átökum hennar og verður síður til þess að sú voðaöld gleymist og myndar jafnvel brú yfir í Sturlungu sjálfa og gerir lesendum auðveldara um vik að setja sig inn í þá margbrotnu sögu.

;
©Ástríki ehf. Vesturströnd 15, 170 Seltjarnarnes
Sími: 692 6012.