Error loading MacroEngine script (file: OpenGraphMetadata.cshtml) Spássían.is - Hrífandi óhugnaður

Hrífandi óhugnaður

Herbergið, sem kemur fram í titli nýjustu skáldsögu Emmu Donoghue, er heimur aðalpersónunnar Jacks og eina umhverfið sem hann hefur kynnst á fimm ára langri ævi sinni. Jack er sögumaður Herbergis og í gegnum hann kemst lesandinn fljótlega að því að Jack og móðir hans eru fangar Nicks gamla sem heimsækir mömmuna á nóttunni og lætur braka í rúminu, og að Jack fæddist á gólfmottunni í herberginu.

Söguefnið er vissulega skelfilegt en samt sem áður er Herbergi ekki sérlega ógnvekjandi og þar skiptir sjónarhorn og tungumál frásagnarinnar meginmáli. Eitt meginsérkenni bókarinnar er að sögumaðurinn er barn og frásagnarstíllinn er afar litaður af aldri hans: einlægur og fullur af málvillum og orðaleikjum, sem og vangaveltum um lífið og tilveruna. Íslenska þýðandans, Ólafar Eldjárn, beið því fremur óvenjulegt og krefjandi verkefni. Sumir orðaleikirnir sem hinn íslenskumælandi Jack og móðir hans stunda fara forgörðum í þýðingu og ýmsum gæti þótt „gallað“ málfar hans skrýtið. Af einhverjum ástæðum virðist frásögnin framandlegri á íslensku en ensku en líklega hefur móðurmál lesandans áhrif á þá upplifun. Ekkert af þessu kemur þó í veg fyrir að sagan grípi lesandann með sér og sögumaðurinn Jack er afskaplega heillandi á báðum tungumálum. Þýðingin er ekki gallalaus en þó á heildina litið ágætlega heppnuð, því verkefnið var erfitt.

Þessi saga, sem á vissan hátt fjallar um mannrán og nauðganir, er hrífandi í óhugnanleika sínum vegna þess að henni er ekki miðlað af fórnarlambinu sjálfu heldur barni hennar sem hefur ekki enn áttað sig á alvarleika málsins. Aðalumfjöllunarefni bókarinnar er ekki glæpurinn heldur annars vegar samband Jacks og móður hans og aðdáunarverð sjálfsbjargarviðleitni þeirra, og hins vegar hvernig Jack áttar sig á því að það er til heimur utan við Herbergi, eins og hann kallar bústað þeirra mæðgina. Hann reynir eftir fremsta mætti að átta sig á því hvað er raunverulegt og hvað ekki og þessi viðleitni hans verður kveikjan að spennandi atburðarás.

Emma Donoghue hefur ekki farið í grafgötur með að hugmyndin að Herbergi hafi kviknað þegar Fritzl-málið alræmda kom upp, þótt hún taki einnig skýrt fram að bókin sé alls ekki byggð á því. Hún ákvað einfaldlega að skrifa bók um dreng sem hefði alist upp í lokuðu rými og aldrei séð umheiminn – líkt og Felix litli Fritzl. Hún segist einnig hafa lagt mikið upp úr tungumáli sögunnar til að gera sögumanninn sannfærandi og m.a. haldið dagbók yfir orðfæri sonar síns, sem var einmitt fimm ára á þeim tíma.

Herbergi er skáldsaga sem höfðar til mjög margra og hefur verið vinsæll valkostur í leshópum úti um allan heim, þar sem hún er auðlesin og vekur upp fjölmargar hugleiðingar sem gaman getur verið að ræða að lestri loknum. Samband Jacks og móður hans er bæði fallegt og óþægilegt í senn og því er lýst á áhrifamikinn hátt, frásagnarhátturinn er heillandi eins og áður segir en umfram allt er Herbergi gríðarlega spennandi bók sem rígheldur lesandanum allt til enda.

 

Ritdómurinn er byggður á eldri dómi um bókina sem skrifaður var eftir að hún kom út á frummálinu, sjá sumarhefti Spássíunnar 2011.

;
©Ástríki ehf. Vesturströnd 15, 170 Seltjarnarnes
Sími: 692 6012.