Error loading MacroEngine script (file: OpenGraphMetadata.cshtml) Spássían.is - Bátnum ruggað

Bátnum ruggað

Siglingin um síkin fjallar um Gyðu sem er nýflutt inn til Sölva sonar síns, á þeim forsendum að fyrirkomulagið sé tímabundið þar til hann finnur íbúð handa henni. Gyða unir sátt við sitt í upphafi, dundar sér við að skrifa týndri dóttur sinni, Svölu, bréf í von um að græða sárin á milli þeirra áður en það er orðið of seint. En fljótlega fer hegðun Sölva að trufla hana, henni finnst hann ganga fulllangt í stjórnsemi sinni og hann virðist vera að bauka eitthvað á bak við hana. Hann ræður til dæmis aðstoðarkonu fyrir Gyðu, Elenu að nafni, en Gyðu finnst hún frekar vera eins og fangavörður en henni til aðstoðar.

Fljótlega fer Gyða að uppgötva gloppur í minni sínu, það verður sífellt erfiðara fyrir hana að ná utan um nýleg atvik og minningar og að lokum neyðist hún til að viðurkenna að hún hefur fegrað minningarnar um sitt eigið líf fram að þessu og uppgjör er óumflýjanlegt.

Bókin er átakanlegt verk og afskaplega vel skrifað. Gyða er sögumaður verksins og við fáum að upplifa með henni, skref fyrir skref, óáreiðanleika minnis hennar og áhrif þess á sjálfstraust og sjálfsmynd hennar. Uppgjörið kemur í mynd Önundar, fyrrum elskhuga, sem hún hittir fyrir tilviljun einn daginn, á flótta undan sjálfri sér og aðstæðum heima hjá Sölva. Hún neyðist á endanum til að viðurkenna endurskrif sín á fortíðinni til að komast úr viðjum vanans, gera sér kleift að horfast í augu við sannleikann um dóttur sína og fara að lifa lífinu á eigin forsendum.

Í verkinu fléttast margir þræðir saman og byggja hver annan upp. Hrunið kemur mikið við sögu og lokapunktur er settur við undirslátt búsáhaldabyltingarinnar. Spilling er eitt af megin viðfangsefnum verksins og er frásögn Elenu af högum mannsins síns í Kólumbíu í aðalhlutverki. Spillingunni þar er stillt upp við hlið hvítflibbaspillingar hins vestræna heims og sagt líklegt að „þegar spilling er orðin rótgróin í landi [sé] ekki ýkja langt í andlegt og jafnvel líkamlegt ofbeldi“ (204).

Brotakenndar og mótsagnakenndar endurminningar Gyðu mynda annan þráð. Innra með henni takast tvær konur á, dreymandinn sem gerir sem mest úr hinum skínandi minningaleiftrum og raunsæismanneskjan sem neitar að rugga bátnum og vill feta hina öruggu slóð innan síns þægindaramma. Saga þessara tveggja koma sem innskot inn í frásögnina og þótt þau séu ruglingsleg í fyrstu, veita þau frásögninni aukna dýpt. Samskipti þessara tveggja kvenna segja því allt um framvindu verksins en við verðum að kynnast Gyðu og skilja hana til þess að geta skilið samtöl þeirra og þrætur.

Þetta er fallegt verk og skemmtilega uppbyggt, margar frásagnir knýja hver aðra áfram og mynda merkingabæra heild. Ferðalag Gyðu um minningarnar og hennar eigin óstöðugleiki skapa draumkennt ástand, þar sem lesandi treystir sögumanninum ekki alveg og skilin á milli draums og veruleika eru ekki skýr.

;
©Ástríki ehf. Vesturströnd 15, 170 Seltjarnarnes
Sími: 692 6012.