Error loading MacroEngine script (file: OpenGraphMetadata.cshtml) Spássían.is - Á mörkum merkingarleysu

Á mörkum merkingarleysu

Undantekningin er látlaus saga um ansi margt. Söguþráðurinn er tiltölulega einfaldur og mikið er um samtöl, vangaveltur og endurlit. Þó rúmast í honum óvæntar uppákomur og stefnubreytingar hjá persónunum. Í grunninn er þetta saga um konu sem upplifir það að eiginmaður hennar fer frá henni til annars karlmanns og hvernig hún vinnur sig út úr því áfalli. En þetta er líka saga um eðli skáldskaparinn og sú saga er talsvert flóknari.

María og Flóki hafa lifað rólegu og áreynslulausu lífi í ellefu ár og eiga saman tveggja og hálfs árs gamla tvíbura. Í kjallaranum hjá þeim býr dvergurinn Perla, sem er hjónabandsráðgjafi og draugapenni fyrir frægan glæpasagnahöfund. Yfirlýsing Flóka um að hann sé hommi og hafi átt í löngu ástarsambandi við annan mann (sem heitir líka Flóki) kemur eins og þruma úr heiðskíru lofti og fær Maríu til að endurmeta allt í sínu lífi – ekki síst þær minningar sem hún á um hjónaband sitt. Perla fylgist áhugasöm með og reynir bæði að aðstoða Maríu og nýta sér sögu hennar í skáldskap. Þegar á líður bætist við sagan af blóðföður Maríu sem hún þekkir ekkert.

Auður Ava teflir fram stórum hugmyndum á borð við ásköpuð örlög (María er mjög upptekin af því að hafa misst „manninn í lífi sínu“) svo og sjálfa skáldskaparlistina (undirtitill bókarinn er de arte poetica) en Perla gerir ófáar tilraunir til að koma veruleikanum heim og saman við skáldskapinn eins og hún upplifir hann. Slíkar samræður eiga sér hins vegar allar stað inni á heimilinu og sú tenging er rauði þráður bókarinnar. Öll samskipti, hvort sem þau eru hversdagslegt stúss með börnunum eða heimspekilegar vangaveltur spretta upp úr því umhverfi. Þannig er heimilið bæði uppspretta og vettvangur endurhugsunar og endurritunar. Auður Ava leikur sér einnig með myndmál sem tengist fuglum og er það ríkjandi út söguna. María finnur tómt hreiður sem hún veit ekki hvað á að gera við og fuglafræðingur í næsta húsi gerir hosur sínar grænar fyrir henni. Í byrjun sögu talar hún um tvo hrafna – rétt áður en eiginmaður hennar Flóki yfirgefur hana fyrir annan mann sem heitir líka Flóki. Á fallega hannaðri bókarkápunni blasir svo við risastór hrafnsfjöður. Þó ber að varast að lesa of djúpt í tákn eins og tilvísun í Hrafna-Flóka gæti boðið upp á, því Perla skáldkona bendir á að atburðir sem virðast þrungnir merkingu gætu reynst hrein merkingarleysa.

Á hinn bóginn er ekki hægt að líta fram hjá því að hreiðrið er tómt. Það getur vísað til þess að einhver hafi verið yfirgefinn og að einhver annar hafi losnað úr aðstæðum sem þrengdu að honum. Það megi þó ekki gleyma því að í tómu hreiðri búi ýmsir ónýttir möguleikar og það geti líka falið í sér vissa sjálfstæðisyfirlýsingu. En, bætir hún við og hikar andartak, þar sem líf þitt er hvorki skáldsaga né draumur, þá horfir málið öðruvísi við.
Hvernig þá?
Merkingarleysa. (193)

Slíkt á auðvitað ekki að finnast í skáldskap þar sem góður höfundur setur aldrei neitt inn sem ekki er mikilvægur hluti af verkinu í heild. En þegar um er að ræða meta-frásögn þar sem hugmynd að skáldsögu fæðist um leið og skáldsaga er sögð er ekki frá því að merking fari svolítið í hnút. Mann grunar jafnvel að Auður sé að stríða bókmenntafræðingum – kitla þá með fjöður – þar sem þeir reyna að klastra saman merkingu úr skáldsagnavísbendingum. 

Sagan er afskaplega vel sögð og er flæðið í gegnum endurminningar fortíðar og upplifun nútíðar áreynslulaust. Auður Ava hefur firnagott vald á þeim stíl að segja flókna hluti á einfaldan hátt, sem ekki mörgum er gefinn. Þótt lesandi eigi stundum erfitt með að skilja hversu ofboðslega háð María var hinum ótrúa eiginmanni, og er enn, er auðvelt að hrífast með inn í hugarheim hennar og aðstæður. Undantekningin er án efa með betri bókum sem ég hef lesið.

;
©Ástríki ehf. Vesturströnd 15, 170 Seltjarnarnes
Sími: 692 6012.