Minningar að norðan

Í níundu ljóðabók sinni ferðast Sigmundur Ernir á æskuslóðir sínar á Akureyri þar sem ömmur hans, Guðrún og Sigrún, sinntu heimilum sínum af natni og alúð. Bókin er óður til annars tíma, þar sem konan sinnti heimilinu innan frá og maðurinn utan frá. En eins og titill bókarinnar gefur til kynna er áherslan á innviði heimilisins; á konurnar sem sinntu öllu sem sinna þurfti, sultuðu rabbabara, sáu um kyndinguna, tíndu ber, stöguðu í sokka og allt annað, stórt sem smátt, sem krafðist athygli og vinnu.

     Strax á fyrstu blaðsíðunum fær maður tilfinningu fyrir barnshuganum, þrátt fyrir að ljóðmælandi sé augljóslega fullorðinn. Hann sér fjallahring í kviksyndi kaffikorgsins (10) og í ábrystunum myndast víkur og firðir úr berjasafanum (82). Í faðmi ömmu sinnar, lærir barnið að róa í gráðið og fara með vísur: „það var haldið þétt í bak / og kvið, svo ég mætti / læra sannan óm / af eyfirskri lýrík … / amma kunni á þessu lagið“ (72).

     En hið fullorðna barn sem horfir til baka veitir hlédrægni ömmu sinnar athygli: „amma lét helst ekki / taka af sér myndir // vandist því aldrei / að vera til punts“ (67) og trega hennar einnig: „amma raulaði Davíð / og einlæglega Kapríkvæðið / eins og það væri hennar / heita þrá // hún sönglaði það // með töfrum, tign / og heimsætum trega“ (51). Þessar tilfinningar eru þó ekki krufðar eða greindar, höfundurinn dregur þær upp og leyfir þeim að liggja í loftinu innan um minningar um nælonsokka, eirbox og tindátaleiki.

     Bókinni er ekki skipt upp á neinn hátt, ömmurnar eru ekki nefndar á nafn og því blandast heimilin tvö saman og Sigmundur gerir engan greinarmun á því hvar hann situr til borðs. Það er þó hægt að greina á milli í litlum smáatriðum; önnur amman gengur alltaf í nælonsokkum en hin í tátiljum, en hvor er hvað er ekki tilgreint og ekki heldur hvor þeirra býr á Gilsbakkavegi og hvor á Helgamagrastræti. En það kemur ekki að sök, enda ekki tilgangur bókarinnar að fara í saumana á lífshlaupi þessara kvenna heldur endurupplifa ástúð þeirra og umhyggju.

     Sigmundur reiðir sig mjög á lykt til að kalla fram minningar bókarinnar, sérstaklega hefur matarlyktin mikilvægu hlutverki að gegna, enda tekur hann fram í upphafi bókarinnar að „minning er lykt / af tíma / sem tekur að lifa“. Heitur matur í hádeginu, sigin ýsa með nóg af hamsatólg, grjónagrautur, innmatur; allt þetta minnir skáldið á einfaldari tíma, þar sem nægjusemin réði ríkjum og ekkert var látið fara til spillis: „ef ekki vildi betur / þurfti amma að taka í nefið // sagði / blíðum rómi við mig / að svona lagað / færi nú ekki í vaskann“ (70).

     Afinn gegnir litlu hlutverki en er þó ávallt sýnilegur, þar sem hann sinnir útiverkum, reykir lambakjöt og gefur barninu kæstan hákarl úti við suðurgaflinn, enda vildi amma „ekki lyktina inn í hús af því að pestin sæti í gardínunum“ (33).

     Þetta er hæglát ljóðabók sem lætur lítið yfir sér, frekar ljúf og mjög persónuleg. Hún höfðar sterkast til þeirrar kynslóðar sem þekkir slíkar ömmur. Mínar voru fæddar 1917 og 1941 og því kannast ég bara lauslega við andrúmsloft þess tíma sem lýst er hér. Bókin nær því ekki alveg tangarhaldi á mér. Tónninn er oft ívið of rólegur, og endurteknar matarminningar gera hana einsleitari en hún hefði þurft að vera. Sterkustu ljóðin eru þau sem skyggnast inn í hugarheim kvennanna, þar sem við sjáum glitta í manneskjuna bak við svuntuna. Ljóðið á blaðsíðu 29 er gott dæmi: „Frammi í holi / var sporöskjulaga spegill / sem amma talaði stundum við / eins og hana vantaði félagsskap“.

     Róin og friðurinn sem stafar af ljóðunum skilar sér þó alveg, og raunheimur kvennanna innan seilingar, þó að við náum aldrei almennilega taki á honum. Hann er okkur eins fjarlægur og kvæði ömmunnar „ [...] sem hún faldi á bak við glerið; kvað það vera eitt sinna skástu ljóða, en engum ætlað“ (38).

;
©Ástríki ehf. Vesturströnd 15, 170 Seltjarnarnes
Sími: 692 6012.