Fjöllin, myrkrið og þögnin

Glæsileg kápa skáldsögunnar Rof eftir Ragnar Jónasson er í fullu samræmi við umfjöllunarefnið. Hún er grá og drungaleg, einmanaleg, kuldaleg, skökk og svolítið skæld; um miðja kápu er dregin lína og hlutarnir hvoru megin við hana stangast á, eru ekki í fullu samræmi. Hér er um að ræða fjórðu spennusögu höfundar og enn er aðalsöguhetjan lögreglumaðurinn Ari Þór. 

Sagan gerist að mestu á Siglufirði, bæði í nútíð og fortíð. Bærinn er einangraður vegna banvænnar sóttar sem komið hefur upp í kjölfar heimsóknar erlends ferðamanns þangað. Enginn fær að fara inn og enginn fær að fara út. Meðan á þessu stendur er Ari Þór beðinn að grafast fyrir um dularfullt dauðsfall sem átti sér stað fyrir meira en hálfri öld. Þá fluttu tvenn ung hjón í Héðinsfjörð, afskekktan stað sem nú er í eyði, og endaði sú dvöl með dularfullum dauða annarrar kvennanna. Hún er sögð hafa tekið inn eitur fyrir mistök eða jafnvel framið sjálfsmorð en nýjar upplýsingar benda til þess að hugsanlega hafi verið um morð að ræða. Ari fær hjálp frá fréttakonunni Ísrúnu í Reykjavík en auk þess rannsakar hún sakamál í höfuðborginni þar sem við sögu kemur morð, barnsrán, eiturlyf og stjórnmálamenn.

Það er heilmikið á seyði í Rofi, margar sögur sagðar samtímis og allar eru þær spennandi. Einkalíf helstu persóna er ekki síður spennandi en glæpirnir sem þær fást við, einkum á það við um ástarmál Ara og svo samband Ísrúnar við foreldra sína og sjúkdóminn sem hún hefur engum sagt frá. Höfundur mætti þó liggja betur yfir persónunum og sérstaklega er það aðalpersónan Ari sem mætti lifna betur við, öðlast meiri dýpt og persónuleika.

Rof er römmuð inn af myrkri, þögn og fjöllum; því sem Ari hefur átt erfitt með að sætta sig við og lifa með allt frá því að hann flutti til Siglufjarðar. Sömuleiðis lýsa þessi orð vel atburðunum í Héðinsfirði. Óttinn við að missa það sem átt hefur – og maður hefur kannski aldrei átt rétt á - er einnig áberandi þema í bókinni og á það bæði við um atburðina sem gerast fyrir norðan og sunnan, í fortíð og nútíð. Rof er ágætasta spennusaga og þótt nostra mætti betur við persónusköpun og tengingu milli atburða er vel hægt að mæla með bókinni.

 

 

;
©Ástríki ehf. Vesturströnd 15, 170 Seltjarnarnes
Sími: 692 6012.