Bragðlaukanna undur

Það má lesa alls konar boðskap úr þessari bók sem á erindi til okkar hér og nú. Til dæmis um sigur vonarinnar yfir vonleysinu þegar hart er í ári og gildi þess að leyfa náungakærleikanum að sigrast á dómhörkunni. En hún er ekki svo galin. Eitthvað á þá leið hljómaði fyrsti dómur minn um Gestakomur í Sauðlauksdal, sem eins og venjulega féll í samræðum, rétt eftir að lestri lauk.

Um miðja síðustu öld sagði Philip Hobsbaum að viðbrögð lesenda við skáldverkum væru tilfinningaleg og ósjálfráð. Þó sé hægt að færa rök fyrir þeim og útskýra upp að vissu marki. Slík röksemdafærsla er þá verkefni ritdómarans.[i] Ef hann týnist þá ekki einhvers staðar á leiðinni. Ég ætla að hafa þessar leiðbeiningar Hobsbaums að leiðarljósi og gera tilraun til að gefa innsýn í þann hughreystandi boðskap sem ég las úr verkinu, hvers vegna mér líkaði bókin – og hvers vegna það er ekki endilega samasemmerki þarna á milli.

Meginsöguþráður Gestakoma í Sauðlauksdal hverfist um langan undirbúning dýrðlegrar matarveislu, allt frá sáningu matjurta til framreiðslu réttanna, og það er sá þráður sem ég mun halda mig við hérna.[ii] Matarboð eru klassískt bókmenntaþema og fela gjarnan í sér þá hugmynd að við getum miðlað okkar innstu tilfinningum til annarra með því að matreiða ofan í fólk fæðu og að við getum náð innilegra samfélagi við matarborðið en annars staðar. Það er því oft notað sem vettvangur uppgjörs og sátta.

Matur sem tjáningartæki af þessu tagi er oftast tengdur konum, samkvæmt hefðinni. Í Gestakomum í Sauðlauksdal er það hins vegar gamall karl – nánar tiltekið Björn Halldórsson, einn helsti landbúnaðarfrömuður 18. aldar og  þekktastur fyrir frumkvöðlastarf sitt í kartöflurækt – sem tjáir með þessum hætti ást sína á þjóð og landi. Sögupersóna bókarinnar er semsagt byggð á raunverulegri persónu og Magnús Örn Sigurðsson hefur fjallað um það hvernig Sölvi Björn notar rit Björns Halldórssonar sjálfs, þar sem landbúnaðarmál voru í forgrunni, til að byggja upp sögupersónu sína.[iii] Úr verður sannfærandi lýsing á manni sem lifir og hrærist fyrir þá hugsjón að skynsamleg ræktun og nýting landsins geti skilað sér í heilbrigðari og hamingjusamari þjóð.

„Við þurfum betri mat og tíma, þá lærum við“, segir sögupersónan Björn undir lok bókar (134). Góðir hlutir gerast hægt og veislan sem verður að táknmynd þeirrar gjafar sem Björn Halldórsson vildi færa þjóð sinni er afrakstur margra mánaða skipulagningar, vinnu og útsjónarsemi. Þetta er því uppskeruhátíð þess sem nú er kallað „slow food“, en það hugtak er ætlað sem andstæða við nútíma skyndibitamenningu, eða „fast food“. Texti bókarinnar ýtir einnig undir boðskapinn um að til að njóta einhvers fyllilega verði að gefa sér tíma, en hann ber við og við örlítinn blæ af 18. aldar orðalagi sem hefur fyrst og fremst þau áhrif að hægja á lestrinum.

Gestakomur í Sauðlauksdal minntu mig að mörgu leyti á Gestaboð Babette eftir Karen Blixen, en hér er hápunkturinn óvænt breyting á gestalistanum á síðustu stundu. Presturinn Sigurður Árni Þórðarson hefur bent á að bókin Gestaboð Babette sæki til dæmisögu sem höfð er eftir Jesú í Lúkasarguðspjalli og enn nærtækara er að tengja þá dæmisögu Gestakomum í Sauðlauksdal. Dæmisagan segir frá manni sem „gjörði mikla kvöldmáltíð og bauð mörgum“. Enginn boðsgestanna þáði hins vegar boðið og báru þeir við hinum ýmsu afsökunum. Við þetta reiddist maðurinn og ákvað að kalla til „fátæka, örkumla, blinda og halta“ og fylla hús sitt af gestum af handahófi.[iv] Ótal tilbrigði af þessu stefi hafa verið sögð í gegnum tíðina og sjálfur Emil í Kattholti bauð eitt sinn öllum af fátækraheimilinu í veislu.

„Dæmisögur eru margbrotnar og túlkunarmöguleikar því margir“, bendir Sigurður Árni á í fyrrnefndri predikun. Einn er sá að „Guðsveislan sé fyrir hina fátæku og kúguðu“.[v] Vissulega er Guð nær óhjákvæmilega allt um kring þegar fjallað er um 18. aldar veruleika, en saga Sölva Björns hefur ekki á sér blæ hefðbundins kristniboðs. Magnús Örn Sigurðsson hefur bent á að úrvinnsla hans á fortíðinni eigi ýmislegt sameiginlegt með annarri nýlegri „sveitasögu“, Svari við bréfi Helgu eftir Bergsvein Birgisson, en báðar eru settar fram í formi einhvers konar sendibréfa og úr þeim báðum mætti lesa uppgjör við hrunið.[vi] Í mínum huga er þó enn nærtækara að bera Gestakomur í Sauðlauksdal saman við bréfasöguna Jón eftir Ófeig Sigurðsson. Þar segir frá vetrarlangri hellisdvöl Jóns Steingrímssonar eldklerks og samtíðarmanns Björns í Sauðlauksdal, en stíll og form Ófeigs hefur sterkari einkenni 18. aldar rita. Sölvi Björn og Ófeigur gera sér báðir mat úr aðdraganda og eftirleik Móðuharðindanna; skálda upp í eyður á lífsferli manna sem kenndir hafa verið við „nýtt þjóðlífsvor“[vii] og eru taldir eins konar upphafsmenn eða fyrirboðar endurreisnar á Íslandi. Sögupersónurnar sem þeir skapa upp úr gömlum heimildum takast á við óblíð náttúruöfl, ösku, myrkur og dauða, en þótt stundum sæki að þeim vonleysi lifir samt af hjá þeim vonarglæta.

Sölvi Björn endurskrifar sögu Björns í Sauðlauksdal á þann veg að veislan sem hann telur að Ísland hafi upp á að bjóða reynist ekki aðeins fyrir heldri menn, heldur almúgann, og jafnvel sérstaklega þá lægst settu. Sölvi Björn gengur því að einhverju leyti inn í þá hefð 20. aldar að rómantísera menn á borð við Björn og mág hans, Eggert Ólafsson, og draga til dæmis úr yfirlýsingum samtíðarmanna um að Björn hafi verið harður húsbóndi sem beitti hjú sín refsingum. Sölvi Björn gerir það með því að láta skapgerð Björns þroskast undir lok ævinnar. Vinnusemi og samviskusemi eru greinilega hans sterkustu mannkostir en við sjáum mann sem undir lok ævinnar er eilítið farinn að meyrna og slaka á dómhörkunni en sýna meiri umhyggju – eiginleika sem hefðin tengir sterklega konum, líkt og matargerðina. Helsta verkefni hans nú er að gefa næstu kynslóð sem best veganesti.  

Slíkur boðskapur yljar auðvitað og lesandi upplifir sátt í lokin, en við verðum að muna að hin raunverulega saga endaði ekki svona, heldur í stigmagnandi græðgi og hroka þar sem auðurinn safnaðist á hendur fárra útvalinna. Bók Sölva Björns er óskhyggja um það hvernig ævisaga Björns Halldórssonar hefði átt að enda, hvernig saga okkar hefði átt að vera. Um leið er sagan hugsjón um eitthvað sem við gætum gert núna, á tímum sem okkur finnst greinilega nærtækt að bera saman við seinni hluta 18. aldar. Og þótt sömu hugsjónirnar séu kannski endurunnar kynslóð fram af kynslóð – allt frá Jesú til Astrid Lindgren– þarf það ekki að þýða að þær séu svo galnar. Svo lengi sem við endurvinnum þær með mistök eldri kynslóða í huga.[i] Hobsbaum, Philip,  Essentials of Literary Criticism, London, Thames and Hudson, 1953, 9.

[ii] Vissulega eru mun fleiri áhugaverðir fletir á bókinni. Ásdís Sigmundsdóttir fjallaði til dæmis um það í ritdómi í Víðsjá þann 20. desember 2011 að blinda sögumannsins gefur höfundi tækifæri til að vinna með „hljóðmyndir“ í textanum.

[iii] Magnús Örn Sigurðsson, „Náttúran stígur vikivaka“, RÚV, 18. mars 2012, sótt 12. apríl 2012 af http://www.ruv.is/frett/ras-1/natturan-stigur-vikivaka.

[iv]Lúkasarguðspjall, 14.16-24. Sótt 12. apríl 2012 af http://www.biblian.is/default.asp?action=pick&book=41&chap=14.

[v] Sigurður Árni Þórðarson, „Ykkur Babette er boðið í partí“, predikun flutt 25. júní 2006 í Neskirkju, Trúin og lífið, sótt 9. apríl 2012 af http://tru.is/postilla/2006/06/ykkur-babette-er-bodid-i-parti.

[vi] Magnús Örn Sigurðsson, „Náttúran stígur vikivaka“.

[vii] Sjá t.d. „Um sjera Björn í Sauðlauksdal“ eftir S. K. Steindórs í Morgunblaðinu 18. febrúar 1945.

 

;
©Ástríki ehf. Vesturströnd 15, 170 Seltjarnarnes
Sími: 692 6012.