Byltingin étur börnin sín

SUZANNE Collins hefur sagt að hún hafi fengið innblásturinn að Hungurleikjaseríunni þegar hún eitt kvöldið fylgdist með stríðsfréttum og raunveruleikasjónvarpi á víxl og gerði sér grein fyrir að stríð með öllu sínum hörmungum væri orðið að skemmtiefni.1 En viðfangsefni hennar ristir enn dýpra. Þríleikurinn er bein og mjög sláandi ádeila á stríð, ekki síst þann stríðsrekstur sem Bandaríkjamenn hafa stundað í Mið-Austurlöndum undanfarna áratugi. Í fyrstu bókinni var lesandi minntur óþægilega á að ungu fólki er att miskunnarlaust út í átök sem munu oftar en ekki enda með dauða þess. Önnur bókin endurtók þetta þema og bætti við þeirri áminningu að enginn væri óhultur fyrir herkvaðningu. Stríðsátök gætu bitnað á hverjum sem er, ekki síst saklausum borgurum. Í þeirri þriðju hefur orðið allsherjaruppreisn og hérna lærir lesandinn þá erfiðu lexíu að það er ekkert rétt eða rangt þegar kemur að því að ná fullnaðarsigri í stríði. Sigurvegarinn er alltaf sá sem beitir mestum bolabrögðum. En slíkir sigrar eru líka mjög dýru verði keyptir. Hversu hár getur fórnarkostnaður orðið og sigurvegararnir samt talað um réttlátan sigur?

Mockingjay


Þegar bókin hefst er Katniss Everdeen að jafna sig á síðustu hungurleikjum, aðlagast aðstæðum á nýja heimilinu í þrettánda umdæminu og reyna að takast á við hlutverk frelsishetju sem hefur verið þröngvað upp á hana. Grimmilegt stríð geisar á milli hinnar spilltu borgar Kapítól og umdæmanna þrettán og frammistaða hennar sem sameiningartákns getur skipt sköpum fyrir útkomu stríðsins. En Katniss hefur aldrei átt gott með að fylgja skipunum og sami eldmóður og gaf byltingunni líf fær hana til að fylgja sinni eigin sannfæringu í hvívetna, stundum þvert á það sem bandamenn hennar vilja. Fyrr en varir er hún komin í sams konar lífsháska og hún upplifði á leikjunum og fórnirnar verða sífellt erfiðari.

Hunger -games -jennifer -lawrence


Þótt Hungurleikjabækurnar séu markaðssettar fyrir unglinga verður seint sagt að þær sé léttmeti og á það síst við um Hermiskaða. Bókin er mjög erfið aflestrar á köflum þar sem ekkert er dregið undan í lýsingum á fylgifiskum stríðsátaka. Persónurnar þurfa að þola pyntingar, bæði andlegar og líkamlegar, hinum varnarlausu er miskunnarlaust fórnað og ímyndunarafli manneskjunnar þegar kemur að því að finna nýjar og svívirðilegar aðferðir við að klekkja á andstæðingnum virðist engin takmörk sett. Ólíkt hinum bókunum tveimur rann ég ekki í gegnum hana í einni bunu heldur þurfti að taka mér hlé þegar hörmungarnar hlóðust upp. Fyrir vikið er hún mun áhrifameiri en kannski ekki eins ánægjuleg. Vonarneistinn sem hélt lesandanum við efnið í Hungurleikjunum og Eldar kvikna er orðinn ansi daufur undir lok Hermiskaða. En sú von slokknar þó aldrei alveg að með tímanum munu nýjar kynslóðir njóta góðs af því sem á undan er gengið.

  

1 Sellers, John A., „A Dark Horse Breaks Out“, Publishers Weekly, 6. september 2008, sótt 10. október 2012 af  http://www.publishersweekly.com/pw/print/20080609/9915-a-dark-horse-breaks-out.html.
;
©Ástríki ehf. Vesturströnd 15, 170 Seltjarnarnes
Sími: 692 6012.