Leyndardómsfull og létt skrítin saga

Kristófer er spennandi unglingabók sem kom út á þessu ári og er jafnframt þriðja bókin í bókaflokknum Rökkurhæðir. Allar þrjár bækurnar gerast í samnefndu úthverfi í hinni ímynduðu borg Sunnuvík. Rétt eins og Wisteria Lane, gata hinna aðþrengdu eiginkvenna í samnefndri sjónvarpsþáttaröð, virðast Rökkurhæðir á yfirborðinu vera hinn fullkomni staður til að búa á, en undir niðri krauma í stað morða og svika ævintýralegir atburðir sem vekja hrylling.

Mesti drunginn er í Rústunum í úthverfi Sunnuvíkur. Bókin segir frá stráknum Kristófer sem verður hugfanginn af dúkku sem hann finnur þar eftir parkour-æfingu og fer með heim. Hann skilur ekkert í sjálfum sér að hafa svona svakalegan áhuga á dúkkunni, sem er bæði ófríð og svo illa með farin að hún gæti vel átt heima á ruslahaugi, en telur sér trú um að hann sé aðeins að gera hana upp fyrir litlu systur sína, Steinunni Maríu. Dúkkan er hins vegar ekki öll þar sem hún er séð og býr yfir töframætti í smaragðsgrænum  augum sínum sem gerir henni kleift að stjórna og dáleiða hvern þann sem hana lystir. Hún hrífur Kristófer svo að allur hans tími fer í að stara á hana og finna leiðir til að gera hana fallega, svo parkour hættir að vera í fyrsta sæti. Hann og nokkrir vinir hans hjálpast að við að laga dúkkuna og á afmælisdegi Steinunnar er dúkkan  glæsileg  og Steinunn verður alveg jafn heilluð og Kristófer. Þá er eins og hann ranki við sér og geri sér loksins fyllilega grein fyrir alvarleika málsins. Hann ákveður að grípa í taumana áður en allt er um seinan.

Lykillinn að góðri ævintýrabók er umhverfi sem auðvelt er að gleyma sér í. Þetta einkennir bækur eins og Harry Potter, Eragon og Game of Thrones og mér finnst þessi bók einnig ná að skapa slíkan heim. Umhverfis- og persónulýsingarnar  eru mátulega nákvæmar svo lesandanum finnst hann sjálfur vera staddur á svæðinu. Það er líka ákaflega hentugt að jafnvel þótt Rökkurhæðir sé bókasería þá skiptir engu máli hvaða bók byrjað er á. Sjálf uppgötvaði ég ekki einu sinni að ég væri að lesa bók númer þrjú fyrr en ég komst að því fyrir tilviljun. Reyndar vona ég að nýjar upplýsingar komi fram í næstu bók, því enn er mörgu ósvarað og endirinn var dálítið sérkennilegur og kallaði á frekari útskýringar.

Höfundarnir, Birgitta Elín og Marta Hlín, voru greinilega með bæði kynin í huga þegar þær skrifuðu bækurnar um Rökkurhæðir. Kristófer og félagar hans stunda parkour, íþrótt sem felur í sér að hoppa upp um alla veggi og taka glæfraleg stökk og er einkum vinsæl meðal stráka. Þetta smáatriði finnst mér hafa bætt bókina og skapað jafnvægi milli kynjanna, því stór hluti bókarinnar fjallaði jú um dúkku, auk þess sem það gerir bókina nútímalegri. Krakkarnir í bókinni tala einnig "unglingamál" sem staðsetur þá á 21. öldinni en þó með misgóðum árangri. Ég er kannski sérstaklega viðkvæm fyrir svona málfari en þegar einhver kallar símaskilaboð  til dæmis "skiló", sem enginn notar,  til að sýnast unglingalegur, í stað "SMS", sem allir nota, þá hristi ég bara hausinn. Svona "hipp og kúl"  orð hafa reyndar alltaf verið til staðar í bókum fyrir ungt fólk og sýna ef til vill hvaða aldurshóps reynt er að höfða til.  Bókin Kristófer er tilvalin fyrir krakka á aldrinum 10- 15 ára sem eru tilbúin að lesa leyndardómsfulla, frumlega og létt skrítna sögu sem varla er hægt að slíta sig frá. Hún er létt og skemmtilegt lestrarefni fyrir sumarið!

Brynja Steinþórsdóttir, 16 ára

;
©Ástríki ehf. Vesturströnd 15, 170 Seltjarnarnes
Sími: 692 6012.