Valsað í einsemd

Sagnasveigur er frásagnarform sem skýtur ekki oft upp kolli en hefur þó verið við lýði frá því í byrjun 20. aldar. Í Valeyrarvalsinum eru sagðar 16 sögur út frá mismunandi sjónarhornum sem tengjast allar innbyrðis á mismikinn hátt og saman skapa þær svipmynd af íbúum smábæjar á Íslandi í byrjun 21. aldar.

Í Valeyrarvalsinum er að finna bæði kyrrð og hreyfingu sem á sér stað á tveimur tímasviðum. Annars vegar gerast sögurnar á örskömmum tíma einn eftirmiðdag, á meðan kona hjólar í gegnum bæinn og bæjarbúar veita henni eftirtekt, og hins vegar spanna þær marga áratugi þegar skyggnst er inn í líf þeirra persóna sem konan hjólar framhjá og farið yfir sögu þeirra. Þannig verður valsinn til. Hver saga í sagnasveignum kemur  inn á þennan upphafspunkt, þegar konan hjólar framhjá, og valsar síðan mislangt aftur í tíma, og einstaka sinnum fram á við.

Flestar persónur bókarinnar glíma við einsemd af einhverjum toga og virkar hún sem nokkurs konar leiðarstef í gegnum sögurnar.  Við kynnumst konu sem finnst hún alltaf vera ein þótt hún sjái fólk reglulega (en það er ekki "að hitta fólk"), túramanninum sem einangrast með sárum endurminningum, prestinum sem týnir sér í sýndarveröld, karlmönnum sem yfirgefa konur sínar og börnum sem yfirgefa mæður. Við kynnumst einnig sjómanninum, aleinum úti á sundi, sem ólíkt landkröbbum upplifir sig ekki sem einan. Á sjónum finnur hann þvert á móti nánd í gegnum einsemdina þar sem hann rennur saman við himininn, hafið, aflann, hummið, fuglinn og miðin.  Einveran úti á sjó er frelsi undan hinu alsjáandi auga bæjarins - sem veit allt.

Persónugalleríið er stórt og persónurnar eru allar mjög kunnuglegar; erkitýpur íslensks smábæjarlífs. Guðmundur Andri er ekki að fegra smábæjarlífið en að sama skapi er hann ekki að velta sér upp úr yfirdrifinni eymd sem er gryfja sem sumir textasmiðir hafa fallið í.  Fjöldi persóna gerir það hins vegar að verkum að þær eiga það til að renna saman svo erfitt er að henda reiður á hvernig þær tengjast og hvort þær hafa komið fyrir áður. Oft eru þær heldur ekki nafngreindar  sem eykur á ruglinginn.  Því er lesandinn sífellt að fletta fram og til baka til að átta sig á tengingum og vísunum og verður þannig þátttakandi í valsinum. Sögurnar eru teknar úr hversdagslífinu og eru frekar viðburðarlitlar sem gerir það að verkum að það tók mig dágóðan tíma að vinna mig í gegnum þær allar. Textinn rennur engu að síður áreynslu- og tilgerðarlaust og umhverfislýsingar eru unnar af einstakri natni. Valeyrarvalsinn kom út fyrir síðustu jól en hún tilheyrir miklu frekar sumrinu þar sem hægt er að samsama sig afslappaðri stemningu á letilegum sólardegi. 

;
©Ástríki ehf. Vesturströnd 15, 170 Seltjarnarnes
Sími: 692 6012.