Leyndarmál og refsingar

Allir vita hvað gerist þegar þú skreppur í bústað inni í skógi. Sérstaklega ef þú ert bandarískur unglingur í fylgd jafnaldra og staðráðinn í því að sletta úr klaufunum. Einhver eða eitthvað mun refsa þér duglega fyrir stjórnleysið og drepa vini þína einn af öðrum þar til aðeins þú stendur eftir, vonandi búinn að læra mikilvæga lexíu um unglingadrykkju og ótímabært kynlíf.

The Cabin in the Woods, sem kemur í kvikmyndahús nú á vormánuðum, virðist á yfirborðinu fylgja þessari formúlu en umræður um og í kringum myndina gefa til kynna að þar sé á ferð mun klókari útgáfa af "bústaðamyndum" en gengur og gerist. Höfundar að handriti eru  Joss Whedon, sem er best þekktur sem faðir Buffy the Vampire Slayer heimsins, og Drew Goddard, sem gerði handritið að kvikmyndinni  Cloverfield, en hann leikstýrir einnig  The Cabin in the Woods.

Óvæntar fléttur og útúrsnúningur á hefðum virðist ráða ríkjum en erfitt er að segja frá myndinni án þess að ljóstra upp of miklu um söguþráðinn og því sennilega vænlegast að sjá hana með sem minnstar væntingar í farteskinu. Sjálf er ég nokkuð spennt aðvita hvernig "Japanese Floaty Girl" og "Warewolf wrangler" koma  við sögu en báðar persónur eru á hlutverkalista myndarinnar ásamt fleirum, jafn furðulegum.

Spássían, vor 2012

 

Í síðasta tölublaði Spássíunnar fjallaði ég um  kvikmynd sem hafði nýlega verið frumsýnd í Bandaríkjunum og var á leið til landsins. Ekki tókst mér að sjá myndina áður en blaðið fór í prentun en hún hefur nú verið sýnd hér í kvikmyndahúsum í viku eða svo. Engu að síður var ég nógu spennt fyrir henni til að segja frá henni og síðasta laugardag kíkti ég í bíó til að sjá hvernig til tókst.

Í stuttu máli: Frábærlega vel.

Þetta er ekki mynd fyrir alla, það verður að viðurkennast, til þess er hún of blóðug og alltof sérstök. Ég heyrði áhorfendur oftar en einu sinni stynja stundarhátt "hvers konar mynd er þetta?" og stúlka sem sat fyrir aftan mig hefur sennilega haldið fyrir augun allan seinni hlutann því hún sagði  eymdarlega undir lokin: "Ég vil bara vita hvernig hún endar".

 

Cabin

Hversu margar af þessum persónum munu lifa til endaloka? Spoiler: Ekki allar.


Nei, þetta er mynd fyrir hryllingsmyndanördana. Fyrir þá sem hafa séð sinn skerf í gegnum tíðina og kunna að meta oft slunginn boðskapinn sem finna má á kafi í blóðpollunum. Handritið er sennilega eitt það hárbeittasta sem þó inniheldur aftugöngur og afhoggna hausa og umgjörðin öll ber þess vitni að höfundarnir hafi heilmikið að segja um hryllingsmyndageirann og tengsl hans við samfélagið.  Húmorinn er óspart notaður í bland við hryllinginn, sem kemur aðdáendum Buffy the Vampire Slayer síst á óvart, og er hin besta skemmtun þar til áhorfandinn stendur sjálfan sig skyndilega að því að hlæja að atriðum sem eru í raun hræðilega átakanleg. Það er með ráðum gert því höfundarnir eru greinilega ekki aðeins að velta upp spurningum um það hvernig hryllingsmyndir eru framleiddar heldur hvernig áhorfendur bregðast við þeim. Í lokin fær þó fantasían og bíóupplifunin að ráða för.

Það er ekki auðvelt að fjalla um myndina án þess að ljóstra upp um hvað gerist. Ég sá nokkra aðstandendur kvikmyndarinnar súpa hveljur á Twitter um daginn þegar einn gagnrýnandi hafði "spillt" leyndardómum hennar í umsögn sinni. Ég er samt ekki viss um að ekki sé hægt að njóta hennar þótt endirinn sé ljós. Til þess er hún einfaldlega of skemmtileg og áhugaverð. En ef þið viljið vita eitthvað um "Japanese Floaty Girl" verðið þið að kíkja í bíó. Ekki ætla ég að kjafta frá.

 

Cabin2

 

Leikararnir eru allir vel valdir og leikstjórinn Drew Goddard heldur fimlega á spöðunum. Það má til gamans geta að höfundurinn Joss Whedon er einnig höfundur og leikstjóri að ofur-ofurhetjumyndinni The Avengers og leikarinn Chris Hemsworth fer með stór hlutverk í báðum myndum. Þær eru svo sýndar í Bíóhöllinni, önnur fjórum sinnum á dag í einum pínulitlum sal, hin hátt í fimmtíu sinnum á dag í mörgum sölum, rendar dreifðum yfir átta bíóhús. Ég hef ekki séð The Avengers, og sjálfsagt er það hin fínasta mynd, en eitthvað segir mér að þar sé ekki mikið um gagnrýni á kvikmyndaiðnaðinn og hans gegndarlausu upphafningu á karlmennskuímyndinni. En það er sennilega efni í annan og almennilegan pistil.

;
©Ástríki ehf. Vesturströnd 15, 170 Seltjarnarnes
Sími: 692 6012.