Lygin sem gerir okkur frjáls

"Hver er munurinn á sviðinu í Gaflaraleikhúsinu og Borgarleikhúsinu?" spurði tíu ára sonur minn eftir að við komum uppnumin út af Ævintýrum Múnkhásens, þar sem ýmislegt ótrúlegt hafði gerst. Hestur hafði stokkið hæð sína í loft upp, aðalpersónan klifrað til tunglsins og dottið aftur niður og Sara Blandon sungið svo magnað og ógurlega í hlutverki eldfjallaguðsins Vúlkans að skelfingarsvipur kemur enn á fimm ára soninn við tilhugsunina um "reiðu álfadísina í eldfjallinu". Við vorum sammála um að líklega væri enginn munur, a.m.k. ekki þegar búið væri að skapa nógu sannfærandi ævintýrablæ með ljósum og vel úthugsaðri leikmynd til að áhorfandinn týndi sér algjörlega í sögunni. Leikstjórinn, Ágústa Skúladóttir, er löngu orðin kunn fyrir að skapa töfraheima nánast úr engu, og hér nýtir hún þá hæfileika sína til hins ýtrasta, með leikmyndahönnuðinum Axel Hallkeli Jóhannessyni.

Lygasögur Múnkhásens baróns höfða til allra aldurshópa og hafa þann dýrmæta eiginleika að sömu atriðin vekja andakt og hlátur hjá þeim yngstu og elstu, þótt stundum sé það ekki á sömu forsendum. Það er mikils virði að geta deilt slíkri reynslu með börnunum sínum og fjölskyldumeðlimir hafa undanfarna daga rifjað upp einstaka setningar úr sýningunni til að kæta hver annan. "Af hverju eruð þið svona öfugir?" spyr einhver og allir fara að flissa. Þið verðið að sjá sýninguna til að ná brandaranum.

Sagan sem Sævar Sigurgeirsson handritshöfundur hefur skapað úr samsafni ýmissa vel þekktra ýkjusagna sem eignaðar eru Múnkhásen baróni, gerist á tveimur plönum. Við fylgjumst með einum degi í lífi Múnkhásens á efri árum þar sem hann rekur hinar ótrúlegustu sögur af yngri árum sínum, og reynir með því að fá konu sína, sem þjáist af minnisleysi, til að muna hver hann er og hvað þau unnast heitt. Yngri og eldri útgáfur Múnkhásens og konu hans, Katarínu, skiptast á að knýja áfram söguna en eru yfirleitt öll stödd á sviðinu og fylgjast náið hvert með öðru. Hlutverk Múnkhásens sem gamals manns er sem sniðið fyrir Gunnar Helgason, fullt af fjöri og kappi, og Magnús Guðmundsson gaf honum ekkert eftir sem hinn ungi Múnkhásen. Reyndar stóðu allir leikararnir sig vel og erfitt er að hampa einum á kostnað annars, þótt frábær leikur og söngur Söru Blandon í fleiri en einu hlutverki hafi átt stóran hlut í að skapa eftirminnilega stemningu. Ég hef því fátt út á leikinn að setja, nema kannski trúðarödd hinnar ungu Katarínu, sem truflaði mig aðeins. Ástarsagan sem rammar inn ýkjusögurnar og myndar söguþráð verksins er nefnilega innilega fyndin og sorgleg í senn. "Eigum við að koma að kyssast?" spyr ung og ástfangin Katarína og áhorfendur flissa, en vonbrigðin eru mikil í augum gamla barónsins þegar Katarína hlær að þessari lygasögu í ellinni og man ekki hvort maðurinn sem hún elskaði svo heitt að hún elti hann hiklaust í stríð er tannlæknirinn hennar eða mandarína. Ágústa Eva Erlendsdóttir kom vel til skila hugrekki og ákveðni hinnar ungu Katarínu, stúlkunnar sem gerir allt fyrir ástina, og lendir í aðstæðum sem eru í senn bráðfyndnar og harmrænar. Virginia Gillard skilaði jafn vel kómískri sem tragískri hlið þess að eldast og missa minnið í hlutverki Katarínu á efri árum. Það var sérlega ánægjulegt að sjá að konur og karlar fengu jafn bitastæð hlutverk og að persónur sem vel hefðu getað orðið innantómar klisjur, prinsessan sem er bjargað og gamla, hálfelliæra konan á náttkjólnum, voru gerðar að sterkum persónum sem komu ítrekað á óvart. Saga Katarínu er síst veigaminni en saga barónsins sjálfs og hún verður smám saman að jafn miklum geranda og aðalpersónu í verkinu.

Allar hinar stórkostlega fyndnu lygasögur sem Múnkhásen rekur verða þannig að einni stórri sögu af ást og hugrekki andspænis hörmungum lífsins. Gamli baróninn lætur ekki bugast frammi fyrir stærstu ógninni í lífi sínu til þessa, að stóra ástin hans falli í gleymsku, heldur notar lygina, spunann, hið skapandi afl, til að rifja hana upp. Og áhorfendur eru minntir á það reglulega að þeir séu í leikhúsi, þar sem ljós breytast í býflugur, hnakkur verður að heilum hesti og prinsessa að skósveini - þar sem lygin getur verið frelsandi og nauðsynlegt afl í baráttu okkar við erfiðan veruleika.

;
©Ástríki ehf. Vesturströnd 15, 170 Seltjarnarnes
Sími: 692 6012.