Úr húsinu eins og þar er umhorfs eftir vellukkað innbrot

Hvort ég geti skrifað ritdóm fyrir þriðjudag? Ég reyni það. Rétt er að hafa þann fyrirvara á að ef eitthvað er varið í ljóð les maður þau sjaldnast til hlítar fyrir þriðjudag. Rétt er að nefna að best er að leyfa þeim að sökkva og setjast til eins og sum þeirra gera, breytast í kennd handan orða, andrúmsloft sem maður man ekki endilega heila línu úr. Og fyrst fyrirvarar eru komnir á stjá: Haft er á orði að úr ritdómum rithöfunda megi lesa ýmislegt um þeirra eigin fagurfræði og áherslur. Það má vera en einnig kann að hugsast að úr þeim megi lesa eitthvað um bókina sem um ræðir. Sá sem skrifar ritdóm ætti ef til vill í öllu tilfelli að sýna það hugrekki að reyna að komast út fyrir sjálfan sig og fjalla um bókina, hversu nálæg eða fjarlæg hún er hans eigin fagurfræði - en sleppa því ella:

 

Ekki lesa bækur!

Ekki söngla ljóð!

Þegar þú lest bækur visna augasteinarnir

          og skilja eftir tómar tóftir.

Þegar þú sönglar ljóð vætlar hjarta þitt

                          hægt úr hverju orði.

Fólk segir að bóklestur sé ánægjulegur.

Fólk segir að það sé gaman að söngla ljóð.

En ef varir þínar eru sífellt að búa til hljóð

                           einsog krybbur sem tísta að hausti,

þá muntu aðeins breytast í veiklaðan gamlingja.

og jafnvel þó þú verðir ekki veiklað gamalmenni

er það öðrum til angurs að þurfa að hlusta á þig.

(Úr upphafsljóði bókarinnar, "EKKI LESA BÆKUR", Jang Wan Li, bls. 15).

 

Bókin er mikil að vöxtum, svo minnir helst á ljóðasöfn Helga Hálfdanarsonar. Hún ber þess merki, þótt þýðing sé, að vera með sínu móti höfundarverk Gyrðis Elíassonar. Að því leyti minnir hún á ljóðasafniðÖll dagsins glóð, safn portúgalskra ljóða sem Guðbergur Bergsson sendi frá sér fyrir skemmstu, bók með mjög sterk höfundareinkenni þýðanda. Þó kemur fyrr í hugann annað afburða ljóðasafn,Flautuleikur álengdar, safn samtímaljóða frá 2008 í þýðingu Gyrðis sem mikill fögnuður fylgdi hér á mínum bæ.

Í káputexta er lögð áhersla á tengslin við skáldskap Gyrðis sjálfs og skrifaður hálfur ritdómur eins og títt er til að hafa af mönnum ómakið við slíka iðju. Þó fer ekki hjá því að sá gluggi sem opnaður er út í heim í þessari bók sé miklum mun stærri en síðast. Miklu víðari tími er undir, ljóðin eru margbreyttari, fagurfræðin af fjölbreyttari toga. Í kínverskri myndlist er hefð fyrir gríðarmiklum landslagsmyndum sem sýna nostursamleg smáatriði í stóru samhengi. Myndirnar virðast málaðar af toppi fjallstinds og erfitt reynist fyrir sérfræðinga að fá naív áhorfanda til að trúa því að svo sé ekki, allt þetta útsýni er reyndar skáldað þótt það hefði allteins getað verið til. Áhorfandanum verður starsýnt á smáfígúrur, manneskjur og tilfinningahrif þeirra uns rennur upp fyrir honum að landslagið hefur verið valið til að endurspegla þessar tilfinningar. Tunglið braust inn í húsið  er slíkt málverk. Stærðarinnar landslagsmynd full af smáatriðum, senum af fólki að sýsla, ólíkum andartökum ólíkra lífa, fjölbreyttum hugmyndum, smágerðum hugsunum, þungum þönkum og stórum hugmyndum frá mismunandi tíð, menningu og umhverfi.

Friedrich Schiller gerði í frægri grein ("Über naive und sentimentalische Dichtung") greinarmun á tveimur tegundum ljóðskálda. Annars vegar eru "naív" skáld, hins vegar "sentímental" skáld. Hvorug gerðin er neikvæð og önnur er ekki betri en hin, bara ólík. Bernsku skáldin eru saklausari, tengdari fortíðinni, hugtakið "sentímental" merkir hér frekar íhygli sem tengd er við tættan nútímann. Hið bernska skáld yrkir án varnagla, eys úr djúpunum af gnægð og frjóu skeytingarleysi og hugsar aldrei til þess að ljóðið sé fagurfræðileg smíð. Hið íhugula skáld er stöðugt meðvitað um vopnabúr sitt, orðin og aðferðirnar, vinnuna, fágunina, ummerkin sem verða eftir til marks um að textinn er ekki veruleiki. Raunar var það svo að Schiller sjálfur var fremur íhugult skáld og sagður blóðöfunda Goethe af því að vera bernskt skáld. Ef til vill er þetta andstæðupar hentugra en mörg önnur sem á kreiki eru í tímanum, sum frek, til dæmis pólitísk skáld/lýrísk skáld, til að lýsa Tunglinu sem braust inn í húsið. Í gegnum alla bókina má sjá togstreitu milli þessara tveggja tegunda skáldskapar. Hér eru bernsk skáld og hér eru íhugul skáld:

 

GARÐUR AÐ VETRI

Að láta hugsanir vaxa

eins og greinar trésins.

En hvað ef snjór þekur þær?

Ræturnar stífna kvíðafullar.

Þyrping af skjálfandi

gamalmennum

í frostinu niður við ána.

Yfirgefið hús

fullt af gleymdum orðum.

Farðu og spurðu alla þá

sem voru viðstaddir

þegar rósin sprakk út

við skvaldur spörvanna.

(Antonín Bartusek, bls. 196)

 

Að yrkja, eins og Bartusek gerir, um orkídeurnar "sem fela sig í runnunum / af ótta við grasafræðibækurnar", það er íhugult. Að yrkja eins og Jang Wan Li, það hefði Schiller nefnt "naíva" ljóðlist.

Titill safnsins er úr samnefndu ljóði eftir Elisabeth Bishop, afbragðs texta um tímann að loknum heimsenda en ljóðið fær þannig aukið merkingarvægi sem litar safnið. Ljóðunum er raðað eftir höfundum og einnig löndum, byrjað á Kína, þá Japan, þvínæst er fetað slóð sem færist nær okkur í tíma. Þarna er að finna skáld sem ýmsir þekkja, svo sem Vitezslav Nezval, Zbigniew Herbert, Tao Tsien (sem Helgi Hálfdanarson þýddi og birti í safni kínverskra ljóða), Delmore Schwartz - sem ég sé ekki að hafi verið þýddur áður á íslensku - og önnur sem ólíklegt er að margir þekki til, svo sem Mary Oliver, Jane Hirshfield eða Bartusek hér að ofan. Gyrðir ritar stuttan kynningartexta um hvert og eitt skáldanna og eru þeir birtir aftast. Þannig er lesturinn órofin heild með reglulegum taktskiptingum, eftir sum skáldanna eru mörg ljóð þýdd, hér eru mörg ljóð eftir skáld að nafni Jack Gilbert, þar á meðal eitthvert besta ljóðið af íhugula taginu sem heitir "Gagnrýni á ljóðlistina" og fjallar um Síamskonung sem gefur hirðmanni fíl (eða er það kannski bæði bernskt og íhugult?); færri eru eftir önnur skáld og ég hefði viljað fá fleiri ljóð eftir Donald Justice og Anne Sexton sem fá eitt ljóð hvort um sig en eru bæði forvitnileg og mér óþekkt skáld.

Þetta er að öllu leyti vellukkað innbrot, stórvirki með sínum hætti. Helst sver Tunglið braust inn í húsiðsig í ætt við þýðingarsöfn Helga Hálfdanarsonar eða Magnúsar Ásgeirssonar sem hafa haft meiri áhrif á íslenska ljóðlist en margan grunar. Ég geri ráð fyrir að stundum sé þýtt með aðstoð hjálparmáls en ekki beint úr frummáli, án þess að þess sé þó getið. Á sumum stöðum fýsir mig að sjá frumtextann þar sem ég hefði þýtt öðruvísi sjálfur eins og gengur en þetta eru ekki margir staðir; satt að segja hendir varla að ég pirri mig jafn sjaldan á þýðingu og álíti mig ekki hafa betri lausnir á reiðum höndum sjálfur, ég er gikkur. Gyrðir er afburða þýðandi.

Ef einhver merkingarmiðja er í bókinni, eitthvert samhengi sem má rekja sig eftir er það ferðalagið frá bernskum skáldskap yfir í íhugulan en þó er ég engan veginn viss, vera kann að Schiller hafi haft rangt fyrir sér. Heilmargt úr bókinni er byrjað að seytla niður í dulvitundina sem andrúmsloft og á eftir að ríkja þar, sterkt, í húsinu er mettað umhorfs. Ég mæli heilshugar með bókinni. Ég ætla að lesa aftur fyrir næsta þriðjudag.

;
©Ástríki ehf. Vesturströnd 15, 170 Seltjarnarnes
Sími: 692 6012.