Uppdráttur að samfélagi

Í jólabókunum í ár má víða finna fólk sem virðist ekki vita hvaðan það er að koma og hvert það er að fara. Eins og endranær líta margir yfir farinn veg og reyna að finna fótfestu í fortíðinni og náttúrunni en í okkar eftirhrunsheimi er allt í lausu lofti. Persónur Steinars Braga stíma beina leið upp á hálendið en finna þar aðeins eyðimörk, drauga fortíðar og skrímslið í sjálfum sér. Í bók Guðrúnar Evu Mínervudóttur, Allt með kossi vekur, má líka finna skrímsli og eyðilönd en persónurnar þar virðast eiga sér einhvers konar útleið í fantasískum hliðarveruleika. Á svipaðan hátt er sköpunin útgönguleið úr fasísku framtíðarsamfélagi í Trúir þú á töfra?  eftir Vigdísi Grímsdóttur. Oddný Eir Ævarsdóttir leitar á hinn bóginn að jarðsambandi. Hún virðist telja tíma til kominn að láta nú hendur standa fram úr ermum og er tilbúin að taka þátt í að teikna upp kort til að vísa veginn: "Ég er búin að vera að teikna mér til skemmtunar. Reyni að teikna hús. Gerði líka eina tilraun til að teikna upp samfélagsskipan, lífræn tengsl sjálfstæðra klasa. Veit nú ekki hversu skýrandi sú mynd er enda metnaðarfullt verkefni", segir hún í bókinni Jarðnæði (26). Þar gefur hún lesendum áfram innsýn í sinn einstaka söguheim og jafnvel á aðgengilegri hátt en áður. Oddný Eir er meðal athyglisverðustu höfunda okkar um þessar mundir og það er því ástæða til að mæla með þessari bók, ekki síst fyrir þá sem ekki hafa enn kynnt sér verk hennar.

Jarðnæði  er beint (en sjálfstætt) framhald af síðustu bók Oddnýjar Eirar, Heim til míns hjarta -  með þeim fyrirvara að hin línulega frásögn er aukaatriði í þessum bókum. Uppbyggingin er hins vegar nokkuð ólík. Í öllum skáldverkum Oddnýjar er erfitt að greina hvort einhver skil eru milli höfundar og sögumanns, en nú fer hún alla leið yfir í dagbókarformið (sem eykur enn á freistinguna að tengja verk hennar við sjálfsævisöguleg verk Þórbergs Þórðarsonar). Hér er fremur um að ræða heimspekilegar, samfélagslegar og sjálfsævisögulegar vangaveltur en sögu með upphafi, risi, vendipunkti og endalokum. Þó má sjá undirliggjandi rauðan þráð sem tekur smám saman á sig skýrari mynd eftir því sem líður á bókina og gefur dagbókarfærslunum heildarmynd og strúktúr. 

Oddný Eir nýtir sér galdur dagbókarformsins sem felst í því að hversdagslegustu og persónulegustu upplifanir ná oft að kveikja í lesandanum óstjórnlega forvitni að vita meira. Sjálf gefur hún til kynna að leiðarvísir hennar sé "dagbók Dorothy Wordsworth systur hins fræga rómantíska skálds William Wordsworth", sem sé  "ótrúlega spennandi þótt hún sé eiginlega ekki um neitt. Og þó um svo margt" (121). Dagbækur búa yfir þeim möguleika að færa okkur inn á gafl hjá persónunni sem skrifar og ef einhver leyfir okkur að lesa dagbókina sína má segja að það sé yfirlýsing um fullkomið traust. Það myndast því persónuleg nánd milli sögumanns og lesanda í þessari bók þótt höfundurinn flétti heimspekilegum og samfélagslegum vangaveltum saman við einkalífslýsingar.

Tónninn er persónulegur og oft ljóðrænn, stutt í fantasíuna. Hver hugsunin stekkur upp úr annarri í hugmyndaflæði sem hefur þó þungan undirstraum. Og Oddný Eir bremsar alltaf áður en hún verður of háfleyg, kallar sjálfa sig niður á jörðina, stundum með hálfgerðum töfraþulum; orðarunum. Það gerir hún til dæmis eftir að hafa ferðast að "rótum rómantíkurinnar" á slóðir Williams og Dorothy Wordsworth í Grasmere-þorpi:

Ó, óhæfa er að tefja í rómantískri geðfró, gæla við að búa með bróður sínum og konu hans, í afhýsi, skonsu, skrifa og mjólka geiturnar. Í engum tengslum við neitt, fela sig í fíflagerðinu með höfuðið ofan í tóft og missa af möguleikanum á því að eignast sína eigin fjölskyldu. Nú má ég engan tíma missa! Af stað, gamli geldfugl, soðna skynfífl, bjöllurnar verða hljómlausar og rendurnar upplitast á klofnu húfunni þinni nema þú hlaupir núna! Bimm-bamm og bomm, froskur í bauk og ormur í á.   (130) 

Oddný Eir vinnur úr dagbókarhefðinni á sinn eigin hátt, eins og hennar er von og vísa. Lesandinn er látinn fylgja höfundinum eftir í þeim könnunarleiðangri  og uppgötvar töfra þessa forms um leið og sögumaðurinn. Höfundurinn leyfir til dæmis ekki dagbókarforminu að blómstra að fullu fyrr en eftir pílagrímsferðina til Grasmere. Tónninn verður breytilegri og færslurnar fara að bera það með sér að vera hripaðar niður við ólíkar aðstæður; að vera skráning skynjana, hugsana og viðhorfa án þarfar fyrir endanlega úrvinnslu, opnar fyrir útúrdúrum og lausum endum.

Sko, þarna skrifa ég mynstur með y-i, þá er kannski tímabilinu lokið þar sem ég þoli ekki y í mynstur og verð að sjá það með u-i, eyjamunstur. Gaman væri að vera núna með málfræðingi og rabba aðeins, ég myndi fara og kaupa handa okkur rjómapönnukökur og kaffi og tala um eyjur og gestrisni og mynstraða púða undir þreytt höfuð en munstrað laufabrauð í svanga munna. Vel á minnst, mikið er ég svöng. Við hliðina á mér sitja hjón á miðjum aldri. Konan gefur sig á tal við mig ...  (131)

Um leið eykst fjörið í textanum. Eitt það fyrsta sem lesandinn tekur eftir er að dagarnir í bókinni eru allir einkenndir með titlum á borð við: Reykjavík, Lúsíumessa (augun voru stungin úr Lúsíu og höfð til sýnis. Hún er verndari blindra.)" eða "Við Heklurætur, sprengidagur". Snemma í bókinni rifjar Oddný Eir upp hvað henni fannst eitt sinn gaman að "rífa gærdaginn af dagatalinu" og "vita hvað dagurinn hét sem þá kom í ljós".

Og auðvitað ætti maður að búa sér til sitt eigið almanak og hafa til hliðsjónar. Fyrsti kossinn, fyrsta ástarsorgin, fyrsta samviskubitið, fyrsta sjálfstæðisyfirlýsingin, fyrsta heila hugsunin. Eða hvernig myndi maður byggja slíkt dagatal upp? (44) 

Hjá Wordsworth fær hún vísbendingu: "Engin ánægjulaus kerfi eiga að stýra snúningi okkar lifandi dagatals"  (129), og í kjölfar heimsóknarinnar til Grasmere kemur fyrir að nöfn daganna hennar  verða enn persónulegri og fjörlegri: "London, Jakobsdagur Hvaða Jakobs? Þess sem var í mínum bekk í Austurbæjarskóla? Hvar er hann núna? Líklega er þetta heilagur Jakob pílagrímur með skel í vasa til að drekka úr vatn á leiðinni" (144).

Það er nóg af húmor í texta Oddnýjar, krafti, bjartsýni, leit að lausnum og nýjum leiðum. Þráðurinn sem liggur í gegnum söguna er, eins og titillinn gefur til kynna, leitin að jarðnæði; leitin að rótum, að stað til að festa aftur rætur, að hinu fullkomna sambúðarformi og hinu fullkomna samfélagsformi. Því Oddný Eir neitar að hafa skýr skil á milli hins persónulega og hins almenna og segist orðin "forhert í því að þannig verði stundum að ræða vandann, hann sé aldrei á einu plani heldur liggi samhliða öðrum vanda" (93).

Hin persónulega og samfélagslega spurning sem brennur á Oddnýju Eir er "hvernig lifa megi sjálfum sér nógur en um leið í þroskandi samskiptum við aðra" (26).  Lífið er hreyfing og samvera, einangrun og kyrrstaða er dauði, en kannski þurfum við sitt lítið af hvoru svo við brennum ekki út. Leitin að jarðnæði fer að minnsta kosti fram á ferð og flugi. Eftir pílagrímsferðina á slóðir rómantíkeranna tekur við önnur á slóðir forfeðra og -mæðra vítt og breitt um Ísland Leitin að stað til að festa á rætur helst í hendur við leitina að stöðum þar sem maður gæti þegar átt rætur. Vandinn felst í að finna sér samastað án þess að grafa eigin gröf - án þess að festast til dæmis í hættulegri þjóðernishyggju. Hér myndast togstreita milli hinnar persónulegu þrár eftir samastað og samfélagslegrar ábyrgðartilfinningar. Er hægt að eiga sér land og elska það án þess að það endi "allt á einn veg, í ofbeldi gagnvart útlendingum og öllum sem eru ekki skilgreindir sem synir föðurlandsins" (147)?

Við lesturinn má draga þá ályktun að ef við notum  landið þegar við teljum það henta okkur en ræktum ekki raunveruleg tengsl við það, muni það koma okkur í koll. "Heildarsýnin á landið hefur tapast. Það þarf að endurnýja tengslin við náttúruna, tengslin við framtíðina. Í þessu framlengda millibilsástandi og óvissu vantar framtíðarsýn. Þá er ég að tala um Ísland sem heild. Og um mig sem hluta af þeirri heild", segir Oddný Eir í Jarðnæði (112). Hún reynir "að gera skýran greinarmun á þjóðernishyggju annars vegar og ættjarðarást hins vegar" og leitar nýrra skilgreininga á tengslum okkar "við móðurjörðina í framtíðinni". Hún stingur upp á orðinu "fósturjarðarást" til að "skýra tengslin við landið þar sem maður batt naflastreng sinn". En hún leggur jafnframt áherslu á að við verðum alltaf að vera meðvituð um hið stærra samhengi. Einkennandi "fyrir þroskaða ást sé skilningur á heildinni, á heildaráhrifum allra gjörða" og "hollustan við fósturjörðina geti ekki slitnað úr tengslum við heild alls sem er" (147-148). 

Oddný Eir nær engri lokaniðurstöðu í öllum spurningunum sem kvikna við leitina að jarðnæði, enda má segja að það sé leitin sjálf, ferðalagið og viðleitnin til að skapa betra samfélag sem skipti hér máli. Opið dagbókarformið gerir það að verkum að lesandinn fær sjálfur tækifæri til að taka upp lausa þræði og halda hugleiðingunum, ferðalaginu, áfram. Hvers konar samfélagsform viljum við og hvað getum við gert til að gera það að veruleika?  

;
©Ástríki ehf. Vesturströnd 15, 170 Seltjarnarnes
Sími: 692 6012.