Ljóð á mjólkurfernum og minnismiðum

Á síðasta ári komu út fáar íslenskar unglingabækur og ekki sérlega spennandi. Fjármálakreppan var áberandi þema en einnig komu út bækur sem hömpuðu einfaldari tímum, eins og lesa má í nostalgísku tímaskekkjunni Hanna María öskureið (Magnea frá Kleifum, 2011). Nú eru komnar út tvær nýjar unglingabækur, Upp á líf og dauða eftir reynsluboltann Jónínu Leósdóttur og Játningar mjólkurfernuskálds eftir Arndísi Þórarinsdóttur; fyrsta skáldsaga höfundar. Þessar bækur snúast ekki um fjármálakreppuna þótt hún komi við sögu í annarri bókinni, og ekki er horft til fortíðar. Það sem skiptir máli er lífið hér og nú en vandamálin sem sögupersónurnar glíma við eru stór og mikil: Hrönn í Upp á líf og dauða reynir að koma í veg fyrir sjálfsmorð og Halla í Játningunum hefur verið rekin úr sínum góða Hagaskóla fyrir eiturlyfjamisferli.

Vandamál Hrannar hefjast þegar hún finnur dapurlegt ljóð á miðju borðstofuborðinu heima hjá sér. Hún veit ekki hvert skáldið er en fimm skólafélagar hennar koma til greina. Hrönn er sannfærð um að höfundur ljóðsins sé að íhuga sjálfsmorð og lýst er leit Hrannar að "skáldinu". Um leið er miðlað upplýsingum um sjálfsmorðshugleiðingar unglinga og hvernig hægt er að hjálpa þeim.

Það að vera nöppuð með bakpoka fullan af dópi er heilmikið vandamál, en saga Höllu snýst ekki síst um erfiðleika hennar við að byrja í nýjum skóla. Hún er þvílíkur gæðaunglingur að hafa fengið birt frumsamin ljóð aftan á mjólkurfernu en í nýja skólanum veit enginn af þessum né skyldum afrekum og nemendur og kennarar líta á hana sem vandræðaungling og dópsala.

Viðfangsefni Jónínu og Arndísar eru vandmeðfarin. Báðar koma þær efninu frá sér án þess að uppeldis- eða prédikunartónn yfirgnæfi frásögnina. Í Upp á líf og dauða er að finna upplýsingar frá Landlæknisembættinu um sjálfsvíg og sjálfsvígstilraunir unglinga. Þetta er ekki hluti af sjálfri frásögninni og sagan gæti vel verið án þessara fróðleiksmola en þeir trufla þó ekki söguna og dýpka hana raunar því þegar maður les þá tengir maður þá ósjálfrátt við persónur sögunnar og dregur eigin ályktanir. Raunir mjólkurfernuskáldsins eru ansi margar. Fíkniefnamisferlið og hin nýja sjálfsmynd eru dágott viðfangsefni en fleira bætist við. Trúmál, geðræn vandamál og fermingar koma líka við sögu, sem og peningavandræði og krabbamein, en einna merkilegast finnst mér hvernig Arndísi tekst að koma því á framfæri að unglingar eru hugsandi einstaklingar og geti haft áhrif. Þetta er sýnt og sannað þegar Halla og vinir hennar hengja stórt veggteppi á Alþingishúsið. Veggteppið er þakið slagorðum og upplýsingum um málefni sem koma unglingum við, hlutum sem "ættu að vera í lagi en eru það ekki. Sem fá mann til að vilja skera upp á sér handleggina" (Játningar mjólkurfernuskálds,  216). Framtakssemi, ásamt því að þora að taka málin í eigin hendur, eru einnig stór hluti Upp á líf og dauða. Þetta getur verið vanþakklátt starf en undir lok bókar virðist erfiði Hrannar ætla að bera árangur.

Unglingabækur eiga það til að eldast illa og sumum er vafalaust ekki ætlaður langur líftími. Þetta á einkum við um stíl unglingabóka þar sem tilvísanir í poppmenningu samtímans eru oft áberandi og höfundar reyna að líkja eftir talsmáta unglinga. Slíkt gerir að verkum að ferskar bækur úldna oft ansi fljótt. Um leið og höfundar verða að tala til unglinga þannig að þeir vilji hlusta og skilji það sem sagt er má ekki tala niður til þeirra. Þetta er jafnvægisleikur sem bæði Arndís og Jónína eru ansi lunknar í. Frásögn Arndísar er í fyrstu persónu og fullorðinslegur talsmátinn og stundum óvanalegt orðalagið er skýrt með því að aðalsöguhetjan er mjólkurfernuskáld, fyrrverandi fyrirmyndarunglingur og lestrarhestur. Saga Jónínu er sögð í þriðju persónu og þar er meira um samtöl en í Játningunum. Í þeim tekst Jónínu alla jafna að skapa sannfærandi unglinga sem ekki hljóma allir eins en frásögnin sjálf er annars sögð á fremur látlausan hátt. Mér fannst ég þó komast nær Höllu, aðalpersónu Arndísar, en Hrönn í Upp á líf og dauða sem skýrist ef til vill af frásagnaraðferðinni; Halla er alltaf í sviðsljósinu en Hrönn þarf að deila því með öðrum persónum. Því er heldur ekki að neita að Halla er öllu ljúfari persónuleiki en Hrönn sem er afskaplega pirruð. Það er hins vegar bæði gaman að lesa um ljúflinga og pirraða unglinga og vel þess virði að mæla með báðum bókunum.

;
©Ástríki ehf. Vesturströnd 15, 170 Seltjarnarnes
Sími: 692 6012.