Í átt að uppgjöri

Glæpasögur hafa um nokkurt skeið verið einn helsti vettvangur samfélagsádeilu, enda voru glæpasagnahöfundar með þeim fyrstu til að gera góðærið og hrunið að viðfangsefni og þá með áherslu á að afhjúpa skuggahliðar á raunsæjan hátt. Bók Sigrúnar Davíðsdóttur, Samhengi hlutanna, sver sig í þá hefð og mætti kalla raunsæislega hrunbók með glæpasögufléttu. Eins og nafnið gefur til kynna gerir hún tilraun til að setja glæpina sem framdir voru á góðærisárunum í stærra samhengi; fara í saumana á orsökum og afleiðingum. Sigrún nýtur hér góðs af því að hafa um árabil flutt pistla í útvarpið, ekki síst um spillingarmál tengd hruninu. Hún hefur meiri yfirsýn og þekkingu en margur annar á þeim flækjum sem sérstakur saksóknari er enn að reyna að leysa úr. Hún notar nokkuð hefðbundna fléttu þar sem glæpur er upplýstur og þótt niðurstaðan verði fljótt fyrirsjáanleg heldur sá þráður sögunni saman. Inn í þetta vefur hún svo stóru glæpasögunni af því hvernig óprúttnum aðilum tókst að notfæra sér sérstakt og jafnvel nokkuð sjúkt samfélagsástand á Íslandi til að ota eigin tota. Frásagnir af svikamyllum og lýsingar á ýmsum aðilum sem koma þar við sögu eru fyrirferðarmiklar og hægja töluvert á frásögninni en eiga sinn þátt í að undirbyggja fléttuna.

Sigrúnu tekst yfirleitt nokkuð vel að halda upplýsingaflæðinu innan marka sögunnar og á nógu almennum nótum til að lesandinn fylgi viljugur eftir, en hefði hún skorið aðeins meira niður hefði það skilað sér í hraðari framvindu og meiri spennu. Því það er greinilegt inn á milli að Sigrún kann að skapa spennu í frásögn. Sem dæmi um helst til langar senur má nefna glærusýningu um orsakir hrunsins og lýsingar á aðstæðum á vettvangi glæps. Þá er löng sena þar sem aðalsöguhetjurnar lenda á næturbrölti með ógeðfelldum áhanganda útrásarvíkinga fremur þreytandi; persónan er samsafn af neikvæðum klisjum um góðærið og útrásina og bætir engu við þær.

Nokkrar persónur sögunnar eru einmitt því marki brenndar að ögra ekki að neinu ráði stöðluðum ímyndum, til dæmis svipljóti bófinn og ofurkynþokkafullur og ofurgáfaður kvennjósnari sem af óskýrðum ástæðum fellur fyrir mun minna spennandi, reykvískum blaðamanni (þessum dæmigerða drykkfellda sem mæta má í ótal glæpasögum). Aðrar persónur fá þó meiri dýpt og má segja að hin persónulega vídd sögunnar felist í því að aðalpersónan Arnar, sem missir unnustu sína í upphafi bókar, vinnur sig í gegnum sorgarferlið með aðstoð úr ólíklegri átt. Það ferli á sinn þátt í því að lesandanum stendur ekki á sama um það hvernig sagan fer og vill fá einhvers konar úrlausn í sögulok. Samband Arnars við bróður sinn, Rafn, er einnig sannfærandi en um leið táknrænt fyrir þann vanda sem við stöndum frammi fyrir sem þjóð þegar fara á fram uppgjör í íslensku kunningjasamfélagi. Allir þekkja alla og eru margflæktir hver í annars mál. Togstreitan sem skapast er kunnugleg en "lausnin" í tilviki bræðranna helst til einföld.

Í heildina má segja að miðað við risavaxið verkefnið sem Sigrún Davíðsdóttir tekst á hendur, að leitast við að sýna samhengi hlutanna í íslenska efnahagshruninu í formi hefðbundinnar spennusögu, takist henni nokkuð vel upp. Eftir stendur sterk tilfinning um að það séu fyrst og fremst einkenni kunningjasamfélagsins, ásamt óhóflegri þjóðerniskennd, sem hafi valdið hér skorti á gagnrýninni hugsun. Þetta hafi ekki einungis leitt okkur út í græðgi góðærisins og síðar hrunið, heldur komi í veg fyrir að við getum gert upp við þetta tímabil á fullnægjandi hátt. Á sama hátt og Arnar þarf að grafa upp sannleikann um fortíðina til að geta haldið áfram lífinu eftir fráfall unnustunnar þurfum við sem þjóð að vera tilbúin að líta vægðarlaust til baka ef við ætlum okkur að stefna í nýja átt.

;
©Ástríki ehf. Vesturströnd 15, 170 Seltjarnarnes
Sími: 692 6012.