Hvernig verður skrímsli til?

Í Allt með kossi vekur er leitað skýringa á því hvernig skrímsli verður til. Hvers vegna sumir sem segja sig úr lögum við samfélagið verða rómantísk skáld og "sannir uppreisnarseggir", trúa á "ímyndunaraflið, sköpunargleðina og frelsið" og eru ólmir í að "þjóna öllu í kringum sig" (239-240), en aðrir að illskunni holdi klæddri. Við sjáum hvað gerist þegar menn hætta að nota "skynsemina til að hafa hemil á sér" og hleypa hinni eldfimu tilfinningaveru innra með sér út úr prísundinni, þar sem hún hefur verið "í hlekkjum eins og hvert annað kjallaragimpi" (123). Eins og gefur að skilja getur útkoman orðið skelfileg.

Í bókinni rekur ungur maður sögu fósturmóður sinnar og stjúpa, í leit að einhvers konar sannleika um sjálfan sig. Meginsagan hverfist þó í kringum örlög vinahjóna foreldra hans, Indi og Jóns. Hann telur foreldra sína, og um leið sig sjálfan, bera ábyrgð á þeim eins og persónulegri erfðasynd (339). Fljótlega kemur í ljós að "Indi er hetja sögunnar því þótt hún væri á valdi efnishyggjunnar var hún bæði hugrökk og hjartahrein" (61), en sögumaðurinn sá hana aðeins einu sinni og hefur lítið til að byggja frásögn sína á nema slitrótt dagbókarbrot, samtöl við fólk sem þekkti hana og frásagnir móður sinnar sem hann telur sjálfur að sé í hæsta máta lygin. Lesandinn verður því meðvitaður um að nákvæm frásögn sögumannsins af atburðum og innra sálarlífi annarra persóna eru tilbúnar minningar; fortíðin eins og sögumaðurinn vill segja frá henni. Þessi meðvitund um sköpunarferlið sem er í gangi verður þó ekki til þess að skapa óöryggi, heldur þvert á móti. Sögumaðurinn er sífellt að láta lesandanum í té upplýsingar sem auðvelda lesturinn, til dæmis með lýsandi kaflaheitum. Hann virðist því líta á hlutverk sitt sem hliðstætt starfi sínu sem félagsráðgjafi - það felist í að leggja fólki línur og stýra því mjúklega í átt að einhvers konar lausn.

Þetta er sterkt verk; sögumaðurinn kafar djúpt í sálarlíf allra sögupersónanna og gengur ansi nærri þeim en fyrir vikið verða þær áhugaverðar í hversdagsleika sínum og aldrei klisjur, ekki einu sinni grátgjarni kaupfíkillinn Indi eða stífi menntaskólakennarinn Jón. Kaupæði Indi á sér rætur í tilfinningasnauðu uppeldi og sjálfsvígi föður hennar og rétt eins og eiturlyfjafíkn systur hennar er það örvæntingarfull tilraun til að fylla upp í innra tóm og skapa öryggi. Að sama skapi má rekja hina gríðarlegu innibyrgðu reiði Jóns til harðstjórnar í uppeldinu og vangetu  hans til að frelsa sig almennilega undan því oki.

Saga Indi og Jóns verður að eins konar ástarsögu á röngunni; sögu af fjarlægð, bælingu og örvæntingarfullum en nánast fyrirfram dæmdum tilraunum til að öðlast nánd. Viðleitni þeirra er alltaf af sitt hvorum enda skalans; á meðan Indi bætir sífellt fleiri hlutum inn á heimilið er Jón í óða önn að fjarlægja þá og einhvern tíma hlýtur boginn að vera spenntur til fulls. Sársauki persónanna verður hreint áþreifanlegur en Guðrún Eva eykur dramatíkina enn frekar með því að flétta inn goðsagnakenndri fantasíu, sem Sunna Sigurðardóttir hefur fært í myndasöguform, um fyrsta koss heimsins og yfirnáttúrulegt afl sem losnar úr læðingi hjá þeim sem hljóta slíkan lífsins koss. Kossinn magnar upp hjá fólki þá eiginleika sem búa innra með þeim en hefur verið haldið í skefjum af reglum samfélagsins. Hann verður eins og lausn frá þeim reglum en í flestum tilvikum hermdargjöf því þær innri hvatir sem taka við eru oftar en ekki sjálfseyðandi afl, auk þess sem þær skilja eftir sviðna jörð. Sögumaðurinn er einn af áhorfendunum sem taka þarf afleiðingunum til frambúðar og upplifun hans hljómar sannfærandi í eyrum þeirra sem búa í þjóðfélagi sem einkennist fyrst og fremst af vantrausti og tortryggni: "Ég fer með þá rullu sem ætlast er til af mér án þess að trúa henni alveg. Ég veit varla hvað það er að trúa einhverju alveg" (134).

Allt með kossi vekur er full af óhugnaði, blóði og sársauka og það á reyndar við um fleiri bækur ársins 2011. Þær draga upp fremur myrka sýn af mannssálinni, ekki síst Hálendið eftir Steinar Braga. Í henni er einnig lagt í könnunarleiðangur um innri lendur mannsins og þar reynist ríkja hinn mesti óhugnaður. Líkt og Guðrún Eva fylgir Steinar Bragi eftir nokkrum söguhetjum. Persónurnar eru að einhverju leyti fulltrúar ákveðinna samfélagshópa sem brugðist hafa skyldum sínum, en allar upplifa líf sitt sem misheppnaða tilraun til að vinna bug á óöryggi og tómleika sem fylgdi þeim úr æsku. Þessi fortíð þeirra verður svo grundvöllur þess að óhugnaðurinn í nútíðinni stigmagnast frá því að vera hrollvekja og yfir í hreinan "splatter" eða blóðbað. Hálendið er áleitið verk, því það vekur fleiri spurningar en það svarar, en sú sterkasta er ef til vill: "Hver er skrímslið? Við öll?"

Í Allt með kossi vekur og Hálendinu er kafað inn á við, djúpt í sálarlíf mannskepnunnar, og aftur í fortíðina, arfinn, í leit að uppruna þeirra skrímsla sem fæðast í nútíðinni. Þetta leiðir höfundana á fantasískar slóðir. Sögupersónurnar í Hálendinu aka inn í eins konar gjörningaþoku er þau æða upp í óbyggðir og ganga þar inn í þjóðsagnakenndan hliðarveruleika. Sagan Allt með kossi vekur er ekki bara fleyguð goðsögum, ævintýrum og hliðarsögum; aðalsagan gerist í hliðstæðum veruleika þar sem Kötlugos hófst árið 2001 og stóð til ársins 2004. Þrátt fyrir að sögumaðurinn sé árið 2016 að rifja upp atburði úr fortíðinni fer sögusvið hans æ meira að minna á framtíðarhrollvekjur á borð við The Road eftir Cormac McCarthy - eða kvikmyndina Mad Max, eins og sögumaður bendir sjálfur á (215) - en líkt og í Hálendinu yfirgefa söguhetjurnar siðmenningu borgarinnar, þótt það gerist ekki fyrr en undir lok sögunnar, og æða beint inn í hjarta hinna myrku náttúruafla.

Þótt bók Guðrúnar Evu eigi að gerast í nálægri fortíð hefur hún því um leið á sér framtíðarblæ og minnir okkur á að í uppgjörinu við fortíðina felst einnig vísun til framtíðarinnar. "Og hver er þá boðskapur ævintýrisins?" gætum við spurt eins og sögumaðurinn í Allt með kossi vekur í lok frásagnar sinnar. "Bara þessi venjulegi? Að heimurinn sé spilltur og hættulegur staður en við þurfum samt ekki að láta undan sundrungunni? Að til þess að lifa af þurfum við ekki nema mátulegan skammt af kæruleysi, en til þess að lifa (og deyja) af heilindum verðum við að vera hugrökk og láta okkur hag annarra varða?" (340-341) Það hljómar nokkuð vel, en við það má líka bæta fyrri ummælum þessa sama sögumanns, um að húmorinn sé "hækjan sem við höktum á gegnum lífið" (152). Við þurfum svo sannarlega á slatta af honum að halda ef marka má skáldverk ársins, sem draga mörg hver upp dökka mynd af samfélagi mannanna.

;
©Ástríki ehf. Vesturströnd 15, 170 Seltjarnarnes
Sími: 692 6012.