Gluggað í fortíðina

Nóvember 1976 var ekki merkilegur tími í mannkynssögunni. Engir stórbrotnir atburðir áttu sér stað sem mörkuðu framvindu sögunnar, hvorki á Íslandi né erlendis. Í sögulegum skilningi var þetta mánuður eins og hver annar. Nýútkomin saga Hauks Ingvarssonar gerist á nokkrum dögum í þessum venjulega mánuði og þar háir venjuleg fjölskylda venjulegt stríð við hversdagslífið.

Sagan er sögð út frá sjónarhorni fjögurra persóna sem búa allar í sömu blokk. Mæðginin Dóróthea og Þóroddur og nágrannar þeirra Bíbí og Batti. Áratugur er frá því sjónvarpsútsendingar hófust á Íslandi og sjálft sjónvarpstækið verður kveikjan að atburðarásinni, drifkraftur hennar og lausn. Haukur dregur upp lifandi og sannfærandi mynd af tímabilinu þar sem nostrað er við smáatriðin og leggur hann mikla áherslu á að draga upp mynd af hinni hversdagslegu tilveru áttunda áratugarins. Afstaða höfundar er með hlutlausasta móti þar sem engin af persónunum fær skýrt afmarkað hlutverk hetjunnar. Í staðinn er dregin upp karakterstúdía af fjórum einmana íslenskum sálum í köldum nóvembermánuði árið 1976.

Söguþráðurinn er látlaus en það reynist vera aðalpunkturinn þegar á hólminn er komið. Við erum öll hetjur í eigin frásögn og hið hversdagslega í lífi okkar er þrungið merkingu og mikilvægi sem aðrir eiga oftast erfitt með að koma auga á. Allir eiga sér innra líf sem kryddar hversdagsleikann og persónurnar í Nóvember 1976  glíma við þá togstreitu sem myndast milli innra og ytra lífsins. Hvernig aðrar persónur sjá þær, hvaða andlit þær sýna út á við og hvernig þær eru í raun og veru. Allar eru þær vanmetnar að einhverju leyti en um leið breyskar, sjálfumglaðar, veikar og tregar til að líta í eigin barm. Í ljós kemur að erfiðasta baráttan sem nokkur manneskja getur staðið í er að brjótast út úr viðjum vanans, og söguþráðurinn vinnur sig smám saman að því marki þegar lítill, óvæntur og fágætur sigur næst.

Þeir sem muna að einhverju viti eftir áttunda áratugnum munu kannast við margt sem kemur fram í bókinni og liggur þar galdurinn í smáatriðunum. Viðhorf, talsmáti, tilfinningar og skynjun færa mann aftur um 35 ár og er þeim mun tilkomumeira þegar maður gerir sér grein fyrir að höfundur er varla nógu gamall til að hafa upplifað nokkuð af þessu sjálfur og hefur því lagst í nákvæma og hárfína heimildavinnu. Bókin verður því eins og gluggi inn í fortíðina - eða öllu heldur sjónvarpsútsending - sem birtir fordómalaust allt það sem hún nær að fanga. Kápan, sem er hönnuð af Emilíu Ragnarsdóttur, er einnig falleg og endurspeglar vel umfjöllunarefni og tón bókarinnar. Þetta er ekki bók sem maður gleypir í sig í einum spretti, til þess er framvindan of hæggeng, en þegar maður lýkur lestri situr eftir sú tilfinning að á meðan maður setti sig í spor þessara fjögurra misskildu persóna hafi maður neyðst til að horfast í augu við eigið lítilvægi. Það er svolítið merkilegt.

;
©Ástríki ehf. Vesturströnd 15, 170 Seltjarnarnes
Sími: 692 6012.