Eitt morð og margir glæpir

Myrknætti  er þriðja bók Ragnars Jónssonar, sjálfstætt framhald fyrri bókanna tveggja, Snjóblindu  og Falskrar nótu.Sem fyrr leikur lögregluþjónninn Ari Þór Arason stóra rullu og er nú búinn að koma sér nokkuð vel fyrir á Siglufirði þrátt fyrir að fjöllin þrengi enn að og hann sakni kærustunnar fyrrverandi.

Á Reykjaströnd finnst illa útleikið lík og þar með hefst sagan, en morðið á verktakanum Elíasi Freyssyni er sannarlega ekki eini glæpurinn sem í ljós kemur í sögunni. Fórnarlambið var langt í frá saklaus sál og það er vegna glæpa hans sem sjónvarpsfréttakona að sunnan fær áhuga á málinu og kemur norður til að komast að upplýsingum um hinn myrta. Saga hennar er bæði áhugaverð og flókin. Samverkamenn fórnarlambsins koma líka við sögu, missaklausir eins og gengur, auk þess sem fjallað er um barnaþrælkun og misnotkun. Mitt í þessu öllu saman er enn einn glæpurinn framinn, mansal, en ung nepölsk kona er einhvers staðar innilokuð í myrkri, án matar og drykkjar. Þar að auki glíma sögupersónur flestar við ýmis persónuleg málefni, til dæmis eru ástamál Ara enn í ólestri og hinir lögregluþjónarnir á Siglufirði hafa um nóg að hugsa, annar óttast um hjónabandið en hinn um líf sitt.

Í Myrknætti fléttast margir þræðir saman, misvel þó, og þótt morðið sé að lokum upplýst eins og vera ber er augljóst að sögunni er ekki lokið. Þetta er bæði kostur og galli. Lesendur eru væntanlega forvitnir um hvað verður um persónurnar, sem eru ansi margar, og spenntir að lesa næstu bók, en mér fannst ekki unnið nægilega vel úr öllum hliðarsögunum, sem er raunar það sama og ég fann aðSnjóblindu.  Söguna þyrfti að þétta og hreinsa dálítið til svo hún fái notið sín - eða stækka hana og lengja til að skapa rými fyrir allar persónurnar.

;
©Ástríki ehf. Vesturströnd 15, 170 Seltjarnarnes
Sími: 692 6012.