Brotinn heimur

Fásinna gerist í ónefndu landi í Mið-Ameríku. Sögusviðið er gegnsýrt voðaverkum seinni hluta síðustu aldar. Aðalpersónan og sögumaður er aðkomumaður frá nágrannalandi sem hefur verið fenginn til að prófarkalesa rannsóknarskýrslu sem mannréttindaskrifstofa kaþólsku kirkjunnar hefur látið taka saman um þjóðarmorð á frumbyggjum frá fátækari héruðum landsins.

Bókin er fyrstupersónufrásögn sjálfhverfs og drykkfellds manns með kvíðaröskun. Hann telur allt sem gerist í kringum hann snúast um hann sjálfan og er sífellt að ímynda sér hvað aðrir séu að hugsa um hann, að tala um hann eða klekkja á honum. Lesandinn fylgist með því hvernig hann sekkur sífellt dýpra í fen ofsóknarbrjálæðis og hvernig sjálf hans sundrast meir og meir. Moya hefur mikið vald á því formi sem hann hefur valið sögunni. Takmarkað sjónarhorn hins einstaklega ótrúverðuga sögumanns gerir það að verkum að lesendur fara alvarlega að efast um tengsl  hans við raunveruleika söguheimsins. Einmitt þess vegna segir bókin svo margt um tengsl manneskjunnar við umhverfi sitt, hversu brotakennd upplifun okkar af samfélaginu er.

Höfundur hefur lýst því í viðtölum að þeir sem hafi alist upp og búið við stöðugt stríðsástand eftir áratuga borgarastyrjaldir eins og íbúar Mið-Ameríku geti ekki annað en skrifað pólitískan skáldskap. Hugmyndafræðileg átök, stöðug ógn og þrúgandi ótti er hluti af samfélaginu og þeim sem þar búa. Hann segist sjálfur reyna að lýsa þessu í skáldverkum sínum þótt hann forðist það að vera boðandi á nokkurn hátt og að þau séu að vissu leyti viðbragð við bókmenntum sem krefjist þess að vera sannleikurinn.[1] Í þessari bók er þetta m.a. sýnt með því hvernig brotið tungumál frumbyggjanna, sem lýsa voðaverkum fortíðarinnar, heillar sögumanninn, hvernig orð þeirra skipta hann sífellt meira máli eftir því sem sjálf hans brotnar meira, þar til þau verða í raun eini tjáningarmáti hans. Lesendur sjá stöðugt en óljóst glitta í hryllinginn og á köflum hellist hann yfir sögumann og lesendur í stuttum en mögnuðum andartökum sem ryðjast inn í lýsingar á lélegum pöbbaböndum, partýjum og misheppnuðum kynlífssamböndum. Fjarlægðin milli þessara heima, ofbeldisins og borgarlífsins, dregur upp áhrifaríka mynd, sem beinni lýsingar gætu síður gert, af því hvernig millistéttin í borgum Mið-Ameríku gæti hafa upplifað hörmungarnar sem áttu sér stað bæði nálægt og fjarlægt þeirra eigin veruleika. Erfiðleikana við að viðurkenna hversu mikil áhrif þær hafa á andlegt líf hennar og samfélagið í heild.

Framandleiki þessarar menningar kemur að vissu leyti fram í þýðingu Hermanns Stefánssonar sem er safarík og leyfir frumtextanum að skína í gegn án þess að textinn sé stirður. Ógnarlangar málsgreinar með runum setninga gefa til kynna hugflæði sögumannsins og hvernig hver hugsunin kveikir aðra þar til hann er fastur í neti sem hann getur ekki losað sig úr.

Í texta aftan á kápu Fásinnu er spurt hvernig hægt sé að láta voðaverk og gráleitan húmor fara saman. Eftir lestur bókarinnar get ég ekki svarað því. Aðallega vegna þess að mér fannst bókin ekki fyndin. Mér fannst hún óþægileg. Það segi ég ekki til að lasta hana, það er gott að lesa óþægilegar bækur. Þær fá mann til að velta vöngum yfir upplifunum og viðbrögðum sínum við þeim, hvort sem um er að ræða hispurslausar kynlífs- og kynóralýsingar, hræðilegar sögur af ofbeldi gegn varnarlausum almenningi eða hversdagsleg vandamál og hvernig þau geta blásið út og orðið manni óviðráðanleg. Þetta er þannig bók og því þarf hún ekkert að vera fyndin til að mér líki hún.

[1] Sjá t.d. Cardenas, Mauro Javier, "The Horacio Castellanos Moya Interview", Quarterly Conversation, http://quarterlyconversation.com/the-horacio-castellanos-moya-interview, sótt 05.09.2011.

Enzinna, Wes, "Our Reality Has Not Been Magical", Guernica, apríl 2009, http://www.guernicamag.com/interviews/959/our_reality_has_not_been_magic/, sótt 05.09.2011.

O'Driscoll, Bill, "Uncommon Senselessness", Pittsburgh City Paper, 14. ágúst 2008, http://www.pittsburghcitypaper.ws/gyrobase/Content?oid=oid%3A50720, sótt 05.09.2011.

;
©Ástríki ehf. Vesturströnd 15, 170 Seltjarnarnes
Sími: 692 6012.